Yfirlýsing Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) vegna umfjöllunar um ferliverk á sjúkrahúsinu
19. desember 2002
Í fréttaflutningi hefur gætt misskilnings um efni þeirrar ákvörðunar LSH að fella úr gildi greiðslur til lækna vegna svokallaðra ferliverka. Af fréttaflutningi má dæma að spítalinn hafi tekið ákvörðun sem áhrif hefur á samskipti lækna og Tryggingastofnunar ríkisins. LSH hefur ekkert umboð til ákvarðana um samskipti sjálfstætt starfandi lækna og TR. Þar gilda samningar.
Allur þorri lækna í þjónustu spítalans vinnur samkvæmt kjarasamningum Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra. Nokkur hópur lækna hefur hins vegar tekið laun að hluta til samkvæmt kjarasamningi og að hluta til samkvæmt því greiðslukerfi sem TR viðhefur í samskiptum við einkareknar stofur. Við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur æ betur komið í ljós að óviðunandi er að læknar vinni hlið við hlið þar sem launatilhögun er mismunandi.
Fyrir einu ári ákvað spítalinn að segja upp greiðslufyrirkomulagi því við lækna sem taka laun skv. svokölluðum ferliverkagreiðslum. Alls tekur þetta til 66 einstaklinga. Stærsti hluti þessa hóps fær greiðslu sem er innan við 1 m.kr. á ári. Tuttugu einstaklingar taka laun sem liggja á bilinu 1-6 m.kr. allt eftir því hve margar einingar tengjast hverjum þeirra.
Nefnd, skipuð af forstjóra LSH, undir forystu Jóhannesar M. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga, hefur í haust leitað leiða hvernig einingagreiðslukerfið yrði best leyst af hólmi. Þrátt fyrir vandaða vinnu hefur ekki tekist að ná niðurstöðu um tilhögun sem ásættanleg er fyrir starfsmenn og spítalann. Mál þetta hefur ítrekað verið kynnt stjórnarnefnd spítalans og á fundi nýverið ákvað stjórnarnefnd að eðlilegast sýndist að þeim starfsmönnum sem notið hafa launagreiðslna á grundvelli ferliverka yrði boðið hærra starfshlutfall á spítalanum og í samræmi við þá vinnu sem innt væri af hendi. Með öðrum orðum, læknir sem var í 40% starfi á spítalanum en vann ferliverk og fékk greitt samkvæmt því sem nam t.d. öðrum 40%, yrði boðin 80% staða á spítalanum. Með þessu er spítalinn að breyta launatilhögun til starfsmanna, samræma hana og einfalda.
Samkvæmt kjarasamningum Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra frá því í vor, geta læknar valið að helga störf sín heilbrigðisstofnun, þar á meðal LSH, alfarið og taka þá laun í samræmi við það. Jafnframt var um það samið, að kysu þeir að reka lækningastofu þá gegndu þeir ekki starfi á sjúkrastofnun umfram 80% starfshlutfalls. Á LSH vinna nú 43% lækna þannig að þeir helga starfskrafta sína spítalanum eingöngu. Aðrir læknar eru í 80% starfshlutfalli eða lægra. Af hálfu spítalans var sú stefna mörkuð að þeir sem gegna yfirmannsstöðum, vinni alfarið fyrir spítalann eða við kennslu í Háskóla Íslands. Allir nýráðnir yfirlæknar hafa fallist á þessa skilmála en þeim verið veittur nokkur tími til aðlögunar. Hvað aðra lækna varðar sem ekki gegna yfirmannsstörfum þá er það samkomulagsatriði við hvern og einn að hvaða marki þeir gegna störfum á spítalanum og sinna eigin rekstri. Af hálfu spítalans er því ekki verið að girða fyrir að læknar geti sinnt stofurekstri jafnframt því sem þeir eru starfsmenn spítalans.
Einn þáttur þessa máls er ágreiningur lækna og LSH um umráðarétt yfir þeim ferliverkaeiningum sem unnar hafa verið á spítalanum. Á þessu er ekki sameiginlegur skilningur en í samkomulagi milli heilbrigðisráðuneytis og LÍ frá 1999 er ákvæði um þetta efni. Það er afstaða heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að læknar hafi ekki rétt til þess að flytja umræddar einingar frá spítalanum og fjármuni í samræmi við það.