Framkvæmdastjórn stefnir að eflingu dag- og göngudeildarstarfs á spítalanum í samræmi við tillögur nefndar um ferliverk sem skilaði frumskýrslu árið 2002 og mun skila lokaskýrslu síðar á þessu ári. Skilgreining á starfi og upptalning á göngudeildum spítalans er meðal efnis í skýrslunni. Húsnæði spítalans hefur verið lagfært til að bæta aðstöðu til dag- og göngudeildarstarfsemi. Framkvæmdastjórn LSH hefur ákveðið að rekstri göngudeilda spítalans verði hagað með eftirfarandi hætti:
1. Fagleg stjórnun einstakrar göngudeildar er á höndum þeirrar sérgreinar sem í hlut á. Svið það sem sérgreinin tilheyrir, gegnir samræmingahlutverki á göngudeildum innan sviðsins með sama hætti og á við um annað klínískt starf sviðsins.
2. Þegar göngudeildir í fleiri en einni sérgrein, og/eða fleiri sviðum, eru reknar í sameiginlegri aðstöðu (gangi) skal stjórnun á rekstrarþáttum falin einu tilteknu sviði, að jafnaði því sviði sem meginþungi starfseminnar heyrir til. Á þetta m.a. við um ráðningu starfsfólks, umsjón húsnæðis, innheimtu og fjármálastjórn.
3. Tekjur af starfsemi göngudeildar skulu bókast á hlutaðeigandi sérgrein.
4. Sérhver starfseining greiðir aðstöðugjald til að standa undir sameiginlegum kostnaði við rekstur göngudeildar/gangs og skal áætlun um kostnað við þennan rekstrarþátt liggja fyrir í upphafi árs. Aðstöðugjald skal reiknað m.v. áætlaða notkun á aðstöðu, starfsmannahald og rekstrarvöru og gjaldfært mánaðarlega hjá viðkomandi sérgrein.
5. Stjórn og rekstur sameiginlegra þátta er á ábyrgð tiltekins deildarstjóra í samvinnu við yfirlækna í sérgreinum og deildarstjóra legudeilda.
6. Deildarstjóri yfir sameiginlegum rekstri skal ársfjórðungslega gera sviðsstjórum og stjórnendum sérgreina, grein fyrir starfsemi einstakra göngudeilda; fjölda heimsókna, tekjum og öðru því sem hefur gildi fyrir starfsemina og þróun starfsins.