Níunda alþjóðlega fjölskylduhjúkrunarráðstefnan "Frá innsæi til meðferða: Fjölskylduhjúkrun í fremstu röð" var haldin í Reykjavík dagana 2.-5. júní 2009. Ráðstefnan var haldin á vegum hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, heilbrigðissviðs Háskólans á Akureyri, Landspítala, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ráðstefnuna sóttu rúmlega 450 þátttakendur frá 39 löndum og öllum heimsálfum. Ráðstefnan var haldin í fyrsta skipti í Evrópu.
Það hefur skapast sú hefð á ráðstefnunni að alþjóðlegt tímarit um fjölskylduhjúkrun, „The Journal of Family Nursing", veitir tvenns konar viðurkenningar. Annars vegar er um að ræða viðurkenningar til einstaklinga sem eru frumkvöðlar og leiðtogar í fjölskylduhjúkrun og hins vegar er verið að viðurkenna framsækið verkefni í fjölskylduhjúkrun sem m.a. notar nýjar aðferðir og leiðir byggðar á gagnreyndri þekkingu.
Fjórir hjúkrunarfræðingar á Landspítala fengu viðurkenningu fyrir framlag sitt til verkefnisins: Innleiðing á Calgary fjölskylduhjúkrun á Landspítala. Þeir voru Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, Anna Ólafía Sigurðardóttir, formaður stýrihóps um innleiðingu fjölskylduhjúkrunar, Elísabet Konráðsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar og Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, doktorsnemandi við hjúkrunarfræðideild HÍ. Hjúkrunarfræðingarnir fjórir voru sammála um að stuðningur allra hjúkrunarfræðinga á Landspítala hefði verið mikill og jákvæður við verkefnið. Þessar viðurkenningar eru því einnig viðurkenning til allra hjúkrunarfræðinga á Landspítala sem veita fjölskylduhjúkrun eða framkvæma rannsóknir í fjölskylduhjúkrun á spítalanum.
Dr. Janice Bell ritstjóri alþjóðlega fjölskylduhjúkrunartímaritsins sagði m.a. við afhendingu viðurkenninganna að verkefnið væri dæmi um framúrskarandi samvinnu yfirstjórnar hjúkrunarfræðinga, hjúkrunarfræðinga starfandi á deildum og hjúkrunarfræðinga sem stunda rannsóknir. Dr. Bell lagði áherslu á mikilvægi þess að árangursmælingar og rannsóknir væru gerðar um leið og verið væri að innleiða nýjungar í klínískri hjúkrun.
Markmið með fjölskylduhjúkrun er að auka gæði hjúkrunar og efla samstarf við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Fjölskylduhjúkrun byggir á því að veikindi séu viðfangsefni fjölskyldna og að þau hafi áhrif á alla innan hennar. Með góðri upplýsingaöflun, nærgætni í samskiptum og vel ígrunduðum samtölum við sjúklinginn og fjölskyldu hans geti hjúkrunarfræðingar stuðlað að bættri líðan fjölskyldunnar og hjálpað til við að takast á við þær breytingar sem fylgja heilbrigðisvandanum.