Sjúklingaráðin tíu leiðbeina sjúklingum og aðstandendum þeirra í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Þau hafa verið sett saman á Landspítala í tengslum við stefnumótun um að auka þátttöku sjúklinga og aðstandenda í meðferð sem samþykkt var af framkvæmdastjórn spítalans.
Eitt af verkefnum í stefnumótuninni er að styðja og hvetja sjúklinga og aðstandendur þeirra til að axla ábyrgð og vera virka í meðferð og ákvörðunum um hana. Ávinningur samráðs og samvinnu heilbrigðisþjónustunnar og notenda hennar hefur sýnt sig í auknum gæðum þjónustunnar, betri árangri og samfellu í þjónustu.
Verið er að koma sjúklingaráðunum tíu fyrir víða í húsakynnum Landspítala þar sem fara um sjúklingar, aðstandendur, gestir og starfsmenn. Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, hengdu upp fyrsta spjaldið á bráðamóttökunni í Fossvogi 27. maí 2011. Sjúklingaráðin tíu verða líka á sjúkrastofum og á vef spítalans.