Tilkynning:
Klínísk viðmiðunarmörkum vegna hánæms trópóníns T breytast úr 30 ng/L í 15 ng/L frá og með 1. júní 2012. Þessi mæliaðferð var tekin upp á Landspítala síðastliðið haust.
Ákveðin óvissa hefur verið um hvar setja beri klínísk viðmiðunarmörk hánæms trópóníons T. Helgast það meðal annars af viðleitni til að reyna að halda í sértæki prófsins. Nú er hins vegar samstaða um að hánæm trópónínT mæling teljist vera óeðlilega há ef hún er yfir 99. percentíli af því sem hún er hjá almennu þýði sem er 15 ng/L. Því höfum við ákveðið að breyta klínískum viðmiðunarmörkum á Landspítala til samræmis.
Mismunagreining hækkunar á hánæmu trópóníni T er fjölbreytt. Mikilvægt er því að mælingar séu alltaf túlkaðar í klínísku ljósi. Eins geta viss vandamál valdið viðvarandi vægri hækkun á hánæmu trópóníni T. Undir slíkum kringumstæðum geta breytingar á gildi hánæms trópóníns T milli mælinga gefið frekari grun um bráða blóðþurrð. Fimmtíu prósent eða meiri hækkun milli mælinga sem teknar eru á 3 klukkustunda fresti telst mjög grunsamlegt fyrir bráða blóðþurrð en niðurstöður endurtekinna mælinga ber þó að túlka í samræmi við sjúkrasögu, skoðun og hjartalínurit.
Davíð O. Arnar yfirlæknir
Ísleifur Ólafsson yfirlæknir