Von, félag til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildar E6 á Landspítala Fossvogi, verður 5 ára 10. ágúst 2012. Félagið hefur safnað fé með áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu og þannig verður einnig í ár. Markmiðið nú er að safna fyrir sérhönnuðum stól sem mun gefa mikið veikum sjúklingum möguleika á aukinni hreyfingu og stuðla að og flýta fyrir bata: „Við viljum gera enn betur og vera sem sýnilegust og skorum á alla hjúkrunarfræðinga sem og aðrar heilbrigðisstéttir að taka upp skóna, bursta af þeim rykið og taka þátt í Reykjavíkurmaraþonhlaupi með okkur nú í sjötta sinn."
Smella hér til að heita á hlauparana
Von var stofnað af hjúkrunarfræðingum gjörgæsludeildarinnar í Fossvogi en allt starfsfólk deildarinnar tekur þátt í starfsemi félagsins. Farið var af stað með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni 2007. Það ár var skorað á gjörgæsludeild LSH við Hringbraut og saman hljóp starfsfólkið um 600 km. Frá 2007 hefur starfsfólk gjörgæslunnar ásamt skjólstæðingum og velunnurum unnið ötult við að safna áheitum og selja jóla- og tækifæriskort. Það hefur hlaupið samtals um 1.500 km fyrir Von. Hvert skref hefur borið starfsfólkið nær markmiðum sínum.
Hornsteinn að verkum Vonar er að styðja og styrkja skjólstæðinga deildarinnar og þar ber fremst að nefna aðstandendaherbergi deildarinnar. Það hefur fengið upplyftingu; ný húsgögn, sérsmíðaða skápa með læstum hurðum, sjónvarp, DVD-spilara, tölvu og kaffivél sem nýtur mikilla vinsælda. Von hefur einnig keypt sjónvörp, útvörp og iPod fyrir deildina og aukið þannig afþreyingarmöguleika fyrir sjúklinga og aðstandendur. Von veitir skjólstæðingum reglulega styrki.
Vefur Reykjavíkurmaraþonsins