Starfsemi sjúkrahústengdrar heimaþjónustu jókst um 21% árið 2003 frá fyrra ári. Að meðaltali fengu 65 sjúklingar á mánuði hjúkrunarþjónustu í heimahúsum á vegum spítalans og dag hvern frá morgni til miðnættis var farið í tæplega 18 vitjanir. Aukningin er mest í meðferð sjúklinga með bráðasýkingar og sjúklinga sem þurfa meðferð vegna blóðsega.
Með sjúkrahústengdri heimaþjónustu er reynt að flýta útskriftum sjúklinga frá deildum spítalans, gera innlagnir óþarfar hjá ákveðnum sjúklingahópum og létta af deildunum álagi af þjónustu við sjúklinga í leyfum sem að öðrum kosti kæmu í meðferðir á kvöldin og um helgar.
Starfsmenn eru hjúkrunarfræðingar með langa starfsreynslu á spítalanum sem framfylgja fyrirmælum um meðferð í samráði við þá hjúkrunarfræðinga og lækna sem útskrifa sjúklinginn til þjónustunnar hverju sinni. Vinnusvæðið er allt höfuðborgarsvæðið og suma daga ekur hver hjúkrunarfræðingur allt að 100 km á vakt.
Sjá töflu um starfsemina á vefsíðu sjúkrahústengdrar heimaþjónustu.