Ný hjúkrunardeild tekur til starfa á Landspítala Hringbraut í dag með 22 rúmum fyrir öldrunarsjúklinga. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fór þess á leit að spítalinn tæki að sér rekstur hjúkrunardeildar þar til nýtt hjúkrunarheimili við Sóltún yrði opnað í árslok 2001. Sérstök fjárveiting er frá ráðuneytinu til spítalans vegna reksturs þessarar deildar. Mikill skortur hefur verið á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu og léttir starfsemi nýju hjúkrunardeildarinnar undir í þeim vanda.
Landspítali – háskólasjúkrahús leggur til húsnæði, ásamt fullnægjandi búnaði til að reka hjúkrunardeildina en verktakar eru ábyrgir fyrir öllum almennum rekstri og skipulagningu hjúkrunarþjónustunnar. Verktakar sem sjá um reksturinn eru hjúkrunarfræðingarnir Anna Soffía Guðmundsdóttir og Gerður Baldursdóttir.
Deildin verður rekin í húsnæði geðdeildar á Landspítala Hringbraut, deild 32-A. Gert er ráð fyrir því að sjúklingar hjúkrunardeildarinnar verði eingöngu einstaklingar sem samkvæmt formlegu vistunarmati bíða eftir langtímavistun.