Saumastofa Landspítala fékk Múrbrjótinn frá Félagi heyrnarlausra í mars 2010 fyrir að skara fram úr í viðhorfi og góðu viðmóti við heyrnarlausa. Maria Editha Unabia, Guðrún Elísabet Jónsdóttir, Sigurbjörg Hermannsdóttir, Guðmunda Jóna Kristjánsdóttir, Sigrún Björg Einarsdóttir, Sigrún Sigurjóna Ívarsdóttir og Jónína Vilborg Ólafsdóttir. Auk þeirra starfar Helga Pálmadóttir á saumastofunni.
Saumastofa Landspítala hefur fengið viðurkenningu Félags heyrnarlausra sem veitt er fyrirtækjum eða stofnunum sem skara fram úr að þess mati í viðhorfi og góðu viðmóti við heyrnarlausa.
Laila Margrét Arnþórsdóttir, ráðgjafi félagsins, afhenti viðurkenninguna á starfsmannafundi á Tunguhálsi 5. mars 2010. Í umsögn hennar segir: "Saumastofan hefur verið frarmúrskarandi í þessum efnum og yndislega vel tekið á móti heyrnarlausum starfsmanni. Margir vinnustaðir mættu taka saumastofuna sér til fyrirmyndar og eru þær góðu konur sem þar starfa vel að heiðrinum komnar."
Styttan sem saumastofan fékk til varðveislu nefnist "Múrbrjótur" og er farandgripur. Hann var síðast afhentur árið 2001 og þá var það leikskólinn Sólhlíð sem Félagi heyrnarlausra þótti ástæða til þess að veita viðurkenningu. Það var svo fyrst núna sem félagið fann verðugan arftaka í saumastofu Landspítala. Sigurbjörg Hermannsdóttir, starfsmaður á saumastofunni og Sigrún Björg Einarsdóttir, rekstrarstjóri hennar, tóku við Múrbrjótnum fyrir hönd starfsmanna saumastofunnar.