Ályktun læknaráðs Landspítala 31. ágúst 2011:
Fjárveitingar til reksturs Landspítala - Frekari sparnaðarkrafa!
Læknaráð Landspítala varar við frekari niðurskurði á fjárveitingum til reksturs Landspítala og ítrekar ályktun sína frá því 1. júní s.l.. Þar kom fram álit læknaráðs Landspítala að lengra yrði ekki gengið í niðurskurði á fjárveitingum til Landspítala án þess að minnka þjónustu við sjúklinga enn frekar og skerða öryggi þeirra. Þrátt fyrir þessi varnaðarorð kemur nú fram ný krafa frá stjórnvöldum um enn frekari niðurskurð á næsta ári. Þegar hefur verið skorið niður í fjárveitingum um 23% frá árinu 2008 og hefur starfsmönnum fækkað um tæp 600. Við tökum því undir orð forstjóra Landspítala að ekki verði gengið lengra í hagræðingu heldur kalli þessar aðgerðir á skerta þjónustu Landspítalans við sjúklinga sem ógnar öryggi þeirra. Við skorum því á stjórnvöld að endurskoða fjárlagafrumvarp næsta árs með það að leiðarljósi að hlífa aðalsjúkrahúsi landsins frekari niðurskurði til að tryggja að Landspítalinn geti áfram veitt þá þjónustu sem þeim ber lögum samkvæmt að sinna og Íslendingar eiga skilið.