Tilkynning frá lyflækningasviði:
Legurúmum fækkaði á lyflækningasviði þann 1. desember 2009 og er það liður í hagræðingaraðgerðum sviðins. Breytingarnar eru tvíþættar og felast m.a. í
- fækkun legurúma á B7 úr 22 í 12.
Í stað legurúma verður dagdeildarrúmum fjölgað og eru þau nú 18. Dagdeildin er tvískipt og munu 8 dagdeildarpláss nýtast til að gefa innrennslismeðferð af öllum einingum lyflækningasviðs í Fossvogi og einnig verða 10 dagdeildarpláss sem munu bæta aðstöðu svo hægt sé að koma í veg fyrir/stytta innlagnir. - fækkun legurúma á hjartadeildum 14E og 14G úr 42 í 32.
Þessum 10 rúmum verður breytt í dagdeildarrúm sem munu nýtast til dæmis fyrir hjartaþræðingar og aðra dagdeildarþjónustu sem veitt er hjartasjúklingum. Þetta er einungis fyrsta skrefið en frekari breytingar verða á skipulagi hjartadeilda þann 1. apríl 2010 þegar bráðamóttökur spítalans verða sameinaðar og hjartamiðstöð spítalans komið á fót.
Breytingarnar hafa verið lengi í undirbúningi og voru fyrst kynntar öllu starfsfólki viðkomandi deilda í lok september og um miðjan október. Ljóst er að innlögnum fækkar á þessum deildum og aðrar legudeildir lyflækningasviðs munu þurfa að taka meira til sín af innlagnarsjúklingum en áður. Mikilvægt er að dagdeildirnar létti á legudeildum og þjónusta við sjúklinga verði efld. Þetta verður gert með ýmsum ráðum svo sem að
- setja á stofn frekari fljótgreiningarferli fyrir sjúklinga sem eru ekki sjúkdómsgreindir
- stytta innlagnir af lyflækningadeildum svo sjúklingar geti útskrifast fyrr
- hafa til reiðu önnur úrræði fyrir sjúklinga sem þurfa skjóta en ekki bráða úrlausn svo þeir þurfi ekki allir að koma á bráðamóttöku spítalans.
- nýta önnur úrræði, svo sem heimaþjónustu, sem allra best.
Fyrirhugað er að fylgjast mjög vel með áhrifum þessara breytinga á þjónustu við sjúklinga. Með þessu móti ætti að vera hægt að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu fyrir sjúklinga en fyrir minna fé. Stjórnendur lyflækningasviðs munu endurmeta með reglulegu millibili hvernig breytingarnar ganga og fylgjast með ákveðnum gæðavísum í samvinnu við vísinda-, mennta- og gæðasvið spítalans.