Íslenskuskólinn er röð námskeiða sem erlendu starfsfólki Landspítala hefur staðið il boða. Hvert námskeið er 60 klukkustundir og hefjast þrisvar á ári, í september, janúar og mars, ef næg þátttaka og fjármagn fæst. Námskeiðin standa yfir í 10 vikur og er kennt tvisvar í viku, þrjár kennslustundir í senn. Kennslan fer yfirleitt fram í kennslusölum spítalans við Hringbraut og í Fossvogi. Mæting hefur almennt verið góð og flestir sýnt aukna færni í íslensku sem hefur eflt þá sem starfsmenn, gert þá ánægðari í starfi sínu og bætt samskipti innan starfseininga þeirra. Námskeiðin hafa auk þess verið mörgum hvatning til frekarara náms og eflt félagsleg tengsl þeirra sem voru einangraðir.
Síðustu 19 mánuði hafa um 200 starfsmenn af erlendum uppruna sótt íslenskunámskeið, þar af um helmingur fleiri en eitt. Námskeiðin hafa ýmist verið blönduð eða aðeins opin vissum starfshópum. Þau hafa verið á 6 færniþrepum og haldin tvisvar til þrisvar á ári. Flestir sem sótt hafa námskeiðin vinna í ræstingu eða eldhúsi en í þessum hópi eru líka hjúkrunarfræðingar, annað fagfólk og nemar, starfsmenn í býtibúrum, í þvottahúsi eða úr öðrum störfum. Öll námskeiðin voru starfsmönnunum að kostnaðarlausu og að stórum hluta sótt innan vinnutíma. Þau voru fjármögnuð að mestu leyti af menntamálaráðuneytinu en Efling, SFR og skrifstofa mannauðsmála greiddu hluta kostnaðar. Einnig tóku klínískar starfseiningar þátt í kostnaði við þátttöku hjúkrunarfræðinga. Skrifstofa mannauðsmála (SMM) hefur umsjón með námskeiðunum en Mímir-Símenntun annast þau.
Upplýsingar um námskeiðin er að finna á vef skrifstofu mannauðsmála og hjá Hildi Magnúsdóttur verkefnisstjóra hildurma@landspitali.is, s. 543 1424 og 825 3670.
Landspítali til fyrirmyndar
Á ársfundi Mímis-Símenntunar 13. maí 2009 var Marvi Gil, filippínskur hjúkrunarfræðingur á deild 32C á geðsviði Landspítala, meðal þeirra sem fluttu erindi. Hún sagði frá reynslu sinni af starfi á spítalanum og því gagni sem hún hefði haft af íslenskunáminu þar. Marvi kom til Íslands og hóf störf á 32C fyrir tveimur árum og starfar þar enn við góðan orðstír.
Hulda Ólafsdóttir framkvæmdastjóra Mímis-Símenntunar sagði á fundinum að Landspítali væri til fyrirmyndar varðandi íslenskunám fyrir sína erlendu starfsmenn. Hulda sagði að langflestir erlendra starfsmanna fyrirtækja hafi á s.l. ári sótt íslenskunámskeið á kvöldin en 15% nemendanna fengið kennslu á vinnustað á vinnutíma og væri Landspítali þeirra á meðal. Æskilegt væri að þetta væri hlutfall hærra og að margir vinnustaðir gætu gert betur hvað þetta varðar.