Út er komin ný útgáfa af mest seldu kennslubók í skurðlækningum í heiminum, Schwartz´s Textbook of Surgery, sem er að þessu sinni tileinkuð minningu Margrétar Oddsdóttur, fyrrverandi yfirlækni skurðlækningadeildar og prófessor í skurðlækningum.
Fyrir hönd ritstjórnar færði Arnar Geirsson, hjartaskurðlæknir við Yale háskólasjúkrahúsið, skurðlækningadeild LSH áritað eintak. Páll Helgi Möller yfirlæknir tók á móti bókinni fyrir hönd starfsfólks deildarinnar.
Læknadeild Yale háskólans í Connecticut í Bandaríkjunum hélt dagana 29.-30. september 2009 veglega athöfn til minningar um Margréti Oddsdóttur, sem lést þann 9. janúar síðastliðinn. Margrét útskrifaðist frá læknadeild HÍ árið 1982. Hún lauk sérnámi í almennum skurðlækningum við háskólasjúkrahús Yale árið 1993. Að því loknu hélt hún til Emory háskólasjúkrahússins i Atlanta, þar sem hún lauk sérnámi í kviðarholsjáraðgerðum sem undirgrein við almennar skurðlækningar, fyrst allra skurðlækna. Margrét flutti síðan heim til Íslands og helgaði LSH starfskröftum sínum, en hélt þó áfram tengslum sínum á alþjóðavettvangi, var ötull fyrirlesari og ritaði fjölda greina og bókarkafla um sérsvið sitt.
Fjölmargir ættingjar og vinir Margrétar voru viðstödd minningarathöfnina, m.a. foreldrar hennar, þau Oddur Pétursson og Magðalena Sigurðardóttir; synir hennar Oddur Björn og Sigurður Árni og öll systkini hennar, sem eru sex talsins.
Kvöldið fyrir minningarfyrirlesturinn var haldinn hátíðarkvöldverður, og þar fluttu margir fyrrum samstarfsmenn og vinir Margrétar erindi um kynni sín af henni. Hátíðarfyrirlesturinn var síðan haldinn að morgni 30. september við skurðlækningadeild Yale háskóla að viðstöddu fjölmenni. Þar voru flutt þrjú erindi. Fyrstur talaði Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir við Yale sem ræddi m.a. um þau óvenjulegu tengsl sem myndast hefðu milli skurðlækningadeildar Yale og Íslands fyrir tilstuðlan Margrétar en hún beitti sér fyrir því að nú hafa fjórir íslenskir læknar lagt stund á sérnám í skurðlækningum þar. Þá flutti John G. Hunter, sem er nú prófessor í skurðlækningum í Portland, Oregon erindi og fjallaði m.a. um framlag Margrétar til skurðlækninga á alheimsvettvangi. Að lokum flutti F. Charles Brunicardi, aðalritstjóri Schwartz´s Textbook of Surgery, erindi. Eins og fram kom hér að framan er þessi bók mest selda kennslubók í skurðlækningum í heiminum og ný útgáfa hennar tileinkuð minningu Margrétar. Synir Margrétar tóku við fyrstu eintökum bókarinnar.