Áður auglýstum stofn-/aðalfundi hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið frestað til haustsins 2000. Frestunin var ákveðin í samráði við lögfræðing sjúkrahússins, í ljósi þess að frekari útfærsla skipurits, þ.e. sviðaskipting, liggur ekki fyrir. Næstu mánuði mun starfsstjórn, skipuð fjórum aðalfulltrúum og einum varafulltrúa frá þeim einingum er áður mynduðu Sjúkrahús Reykjavíkur og jafnmörgum fulltrúum frá þeim einingum er áður mynduðu Ríkisspítala, gegna hlutverki stjórnar hjúkrunarráðs.
Aðalfundur hjúkrunarráðs SHR
Aðalfundur hjúkrunarráðs Landspítala Fossvogi (Sjúkrahúss Reykjavíkur) verður haldinn í matsal sjúkrahússins í Fossvogi, þriðjudaginn 30. maí kl. 14:30. Á aðalfundinum verða kosnir fulltrúar í áðurnefnda starfsstjórn og fundi síðan frestað til hausts.
Val fulltrúa Ríkisspítala
Þar sem hjúkrunarráð var ekki starfandi við Ríkisspítala getur kosning ekki farið fram með sama hætti og við SHR. Sá hópur sem hjúkrunarforstjóri fól að vinna að stofnun hjúkrunarráðs við Ríkisspítala mun kalla til fulltrúa hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að skipa starfsstjórnina.