Ályktun stjórnar Starfsmannafélags Landspítala 5. nóvember 2010:
Stjórn Starfsmannafélags Landspítala hefur fjallað um þann samdrátt, niðurskurð og sparnað sem verið hefur viðvarandi undanfarið á Landspítala og áhrif þessa á starfsmenn spítalans.
Stjórn Starfsmannafélags lýsir áhyggjum sínum vegna velferðar starfsmanna spítalans. Síðustu mánuði hafa laun starfsmanna verið lækkuð, matarkostnaður hefur hækkað, starfsmannaafsláttur vegna heilbrigðisþjónustu hefur verið felldur niður og starfsemi heilsuræktar starfsmanna á spítalanum hefur verið skert verulega. Starfsmenn hafa verið einhuga um að spara í allri starfsemi spítalans þannig að skerðing í þjónustu við sjúklinga verði sem minnst. Nú er svo komið að velferð starfsmannanna sjálfra er ógnað.
Stjórn Starfsmannafélagsins hefur fullan skilning á þeirri erfiðu stöðu sem spítalinn er í miðað við þann niðurskurð honum hefur verið ætlaður. Á þessum samdráttartímum er nauðsynlegt að hlúa að þeim mannauði sem býr í starfmönnum spítalans og að efla stuðning við þá í erfiðum hlutverkum sínum, þar sem samtímis eru gerðar kröfur um fyrsta flokks þjónustu og ítrasta sparnað.
Stjórnin hvetur stjórnendur spítalans til að standa vörð um velferð starfsmanna hans. Á þann hátt verður þjónustan við sjúklinga best varðveitt og rekstrarlegum markmiðum jafnframt náð.