Nýlega hlutu tveir læknar á Landspítala bandaríska sérfræðiviðurkenningu í ígræðslulifrarlækningum. Þetta eru Óttar Már Bergmann, sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum og Sigurður Ólafsson sérfræðingur í lyflækningum og meltingarsjúkdómum, settur yfirlæknir meltingarlækninga á Landspítala. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir læknar fá bandaríska sérfræðiviðurkenningu á þessu sviði.
Á undanförnum 15-20 árum hefur átt sér stað gríðarleg þróun í lifrarlækningum (hepatology). Það er einkum tvennt sem ber þar hæst. Fyrst er að nefna uppgötvun lifrarbólguveiru C og þróun lyfjameðferðar við bæði lifrarbólgu C og B. Þá hefur orðið gríðarleg framþróun á sviði lifrarígræðslu og slíkum aðgerðum farið fjölgandi. Þúsundir slíkra aðgerða eru nú gerðar á ári hverju.
Þetta hefur leitt til vaxandi sérhæfingar og í Bandaríkjunum er á mörgum háskólasjúkrahúsum sérstakt sérfræðinám í lifrarlækningum með áherslu á lifrarígræðslu (transplant hepatology fellowship). Slíkt nám kemur til viðbótar námi í almennum lyflækningum og meltingarlækningum. Boðið er upp á sambærilegt sérfræðinám í sumum löndum Evrópu. Lifrarlækningar eru enn sem komið er víðast hvar undirsérgrein meltingarlækninga en hafa þó á sumum háskólasjúkrahúsum stöðu sjálfstæðrar sérgreinar.
Til að hljóta sérfræðiviðurkenningu í ígræðslulifrarlækningum í Bandaríkjunum þarf viðkomandi að hafa bandaríska sérfræðiviðurkenningu í almennum lyflækningum og meltingarlækningum. Þá er krafist sérstaks sérfræðináms í ígræðslulifrarlækningum og/eða vel skilgreindrar reynslu á því sviði. Ef þessum skilyrðum er fullnægt getur viðkomandi tekið sérfræðipróf í ígræðslulifrarlækningum. Þetta próf er haldið í Bandaríkjunum annað hvert ár, í fyrsta sinn árið 2006. Til að fá sérfræðiviðurkenningu þar að standast þetta próf.
Sérfræðinám og sérfræðipróf í meltingar- og lifrarlækningum er ekki í boði hérlendis og lifrarlækningar hafa ekki formlega stöðu sérgreinar á Íslandi. Því er mikill ávinningur fyrir meltingar- og lifrarlækningar á Landspítala að sérfræðilæknar fái slíka formlega viðurkenningu á þekkingu sinni og reynslu.