Fréttatilkynning 28. janúar 2003 Össur hf. og Landspítali - háskólasjúkrahús undirrita samstarfssamning um rannsóknir Samstarfssamningur Össurar og Landspítalans - háskólasjúkrahúss mun efla tengsl sjúkrahússins við atvinnulífið og vöruþróun Össurar á nýjum starfssviðum. Össur hf. og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hafa í dag undirritað samstarfssamning sem skapar grundvöll fyrir öflugri samvinnu LSH og Össurar á sviði rannsókna og þróunar. "Undirritun samningsins mun gera Össuri kleift að efla til muna rannsóknir og þróun á vörum innan nýrra starfssviða fyrirtækisins og auðvelda fyrirtækinu að sækja á nýja markaði á sviði stuðningstækja og sáraumbúða. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir okkur þar sem það er einmitt á þessum nýju sviðum sem fyrirtækið mun sækja vöxt sinn eftir 5 til 10 ár" - segir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf. Össur starfar í dag aðallega á sviði stoðtækja, að þróun, framleiðslu og markaðssetningu gervilima, en hefur í hyggju að sækja inn á markaði fyrir s.k. stuðningstæki sem veita stuðning við líkamann (spelkur) og vörur til sárameðhöndlunar. Fyrirtækið hefur nú þegar sótt um einkaleyfi fyrir uppfinningar sínar á báðum þessum sviðum. Stoð- og stuðningstækjaiðnaðurinn veltir árlega milli 1000 og 1400 milljónum Bandaríkjadala á heimsvísu, en velta á vörum, sem taka til sárameðhöndlunar, er um 3 milljarðar Bandaríkjadala árlega. "Öflugar rannsóknir og tengsl við atvinnulífið er afskaplega mikilvægt fyrir stofnun eins og Landspítala – háskólasjúkrahús, og eru forsendur þess að starfsfólk spítalans sé stöðugt að endurnýja þekkingu sína til að halda stöðu sinni sem leiðandi á sínu sviði" - segir Magnús Pétursson forstjóri LSH í tilefni undirritunarinnar. Um Össur hf Össur hf. er alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum á sviði stoðtækja. Aðalstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík. Dótturfyrirtæki Össurar eru starfandi í Bandaríkjunum, Hollandi og Svíþjóð. Fyrirtækið er í forystu á sviði rannsókna á stoðtækjamarkaðnum og ver árlega 6-8 % af tekjum sínum til rannsókna og þróunar. Fyrirtækið er skráð í Kauphöll Íslands, ICEX, sem er aðili að NOREX kauphallarsamstarfinu. Á árinu 2001 velti Össur 69 milljónum Bandaríkjadala og skilaði 8,6 milljóna dala hagnaði. Áætluð velta fyrir árið 2002 er 78-86 milljónir Bandaríkjadala og hagnaður 9,5-11,5 milljónir dala. Um Landspítala - háskólasjúkrahús
Landspítali - háskólasjúkrahús er stærsti vinnustaður landsins með um 4500 starfsmenn, og fjárhagsleg velta spítalans er 24 milljarðar króna árlega. Á spítalanum fer fram umfangsmikið rannsóknarstarf í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra aðila svo sem fyrirtæki á sviði lífvísinda. Frá stofnun LSH á árinu 2000 hefur sjúkarhúsið stefnt að auknu samstarfi við fyrirtæki sem starfa á vettvangi heilbrigðistækni og með því vill spítalinn auka rannsóknarstarfsemi sína og stuðla jafnframt að uppbyggingu þekkingariðnaðar á Íslandi. Undirritun samstarfssamningsins er einn þáttur þeirrar stefnu.