Nýtt tölvustýrt staðsetningartæki hefur verið tekið í notkun á heila- og taugaskurðdeild Landspítala. Það er gjöf frá Arion banka og sjóði sem verið hefur í vörslu hans og stofnaður var á sínum tíma til að styðja tækjakaup á Landspítala. Nýja tækið er af fullkomnustu gerð frá fyrirtækinu Medtronic. Verðmæti þess er um 25 milljónir króna. Tækið var afhent formlega 27. desember 2011.
Tækið gerir að verkum að skurðaðgerðir á höfði verða bæði nákvæmari og öruggari. Það nýtist best við aðgerðir á æxlum í heila, bæði góðkynja en ekki síst illkynja. Nákvæmni í staðsetningu er um það bil 1 mm sem leiðir til þess að nú er hægt að taka sýni úr æxlum eða fjarlægja æxli úr heila frá stöðum sem áður var illmögulegt að nálgast. Tækið nýtist einnig við ýmsar aðgerðir háls-, nef- og eyrnalækna og bæklunarskurðlækna.
Með tilkomu staðsetningartækisins verður skurðaðgerðin sjúklingnum léttbærari, hættan á aukaverkunum minnkar til muna, sjúklingurinn kemst fyrr á fætur og fyrr heim.
Skurðdeildir Landspítala, ekki síst heila- og taugaskurðdeildin, eru mjög háðar því að tækjakostur sé góður svo aðgerðir séu sem öruggastar og sjúklingunum sem auðveldastar. Með þessari rausnarlegu gjöf er Landspítali eins vel tækjavæddur og best gerist erlendis hvað þessa tækni varðar. Gjöfin er því afar kærkomin.
Tækjasjóður Landspítalans var stofnaður árið 1983 að frumkvæði Búnaðarbanka Íslands til að styðja við spítalann með kaupum á mikilvægum tækjum til lækninga. Undanfarin ár hefur sjóðurinn verið í vörslu Arion banka sem nýverið lagði honum til viðbótarfjármagn svo af kaupum tækisins fyrir heila- og taugaskurðdeild Landspítala gæti orðið. Arion banki leggur á þennan hátt krabbameinslækningum á spítalanum lið en hefur einnig lagt sitt af mörkum við krabbameinsrannsóknir á Íslandi og krabbameinsleit, einkum með stuðningi við Krabbameinsfélagið.