Aðalfundur hjúkrunarráðs, 15. nóvember 2002
Steinunn Ingvarsdóttir formaður
Ágætu hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, virðulegu gestir!
Ég býð ykkur velkomin á aðalfund hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss árið 2002 sem er hér með settur. Í hjúkrunarráði eiga sæti allir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem eru í föstu starfi á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Í stjórn ráðsins sitja formaður, varaformaður og ritari og fulltrúar frá 9 klínískum sviðum auk fulltrúa öldrunarsviðs og endurhæfingarsviðs. Ritari fundarins er Anna Guðrún Gunnarsdóttir og fundarstjóri er Sigrún Gunnarsdóttir og verður dagsskrá með hefðbundnum hætti.
Sigrún gjörðu svo vel og taktu við stjórn.
Ágætu fundarmenn ég flyt ykkur skýrslu stjórnar:
Í starfsreglum hjúkrunarráðs, sem voru samþykktar af stjórnarnefnd sjúkrahússins í febrúar 2001, er kveðið á um hlutverk hjúkrunarráðs á eftirfarandi hátt:
- Hlutverk hjúkrunarráðs er að vera faglegur ráðgefandi vettvangur fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður Landspítala - háskólasjúkrahúss og stjórnendur hans.
- Hjúkrunarráð á frumkvæði að og er vettvangur umræðna um hjúkrun, innan stofnunar og utan.
- Hjúkrunarráð tekur þátt í þróunarvinnu innan sjúkrahússins, meðal annars með eflingu klínískra rannsókna í hjúkrun og tengslum við menntastofnanir í heilbrigðisfræðum.
- Hjúkrunarráð er til ráðuneytis varðandi fagleg málefni hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, svo og rekstur, stjórnun, uppbyggingu og nýtingu sjúkrahússins.
- Hjúkrunarráð er einnig stjórnendum heilbrigðismála utan sjúkrahússins til ráðuneytis sé eftir því leitað.
Á þessu starfsári hjúkrunarráðs hefur stjórnin fundað 16 sinnum og þess utan hafa formaður, varaformaður og ritari haft óformlega vinnufundi. Eru allar fundargerðir á innra neti spítalans á heimasíðu hjúkrunaráðs.
Málefnin sem berast til hjúkrunarráðs eru margvísleg. Þau koma frá framkvæmdastjórn, hjúkrunarstjórn, hjúkrunarforstjóra, lækningaforstjóra, fræðasviði hjúkrunar, gæðadeild LSH, Félagi Ísl. Hjúkrunarfræðinga sem og frá félagsmönnum ráðsins. Formaður hjúkrunarráðs var í febrúar síðast liðnum boðaður á fund hjúkrunarfræðinga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri til að kynna starfsemi ráðsins og hafa hjúkrunarfræðingar þar fullan hug á að stofna hjúkrunarráð við sjúkrahúsið.
Eins hefur formaður verið boðaður á fund undirbúningsnefndar að stofnun hjúkrunarráðs á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík. Í síðustu viku hringdi hjúkrunarforstjórinn á Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi og bað um heimsókn og upplýsingar varðandi hjúrunarráð LSH.
Hjúkrunarráð var beðið um umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn og umsögn vegna tillögu til þingsályktunar um samstarf fagstétta í heilsugæsluþjónustu.
Viðbótarsamningur LSH og HÍ og síðar starfsmannakafli þess samnings var sendur hjúkrunarráði til umsagnar, einnig drög að vísindastefnu LSH og endurskoðun á reglum um þátttöku starfsmanna í vísindrannsóknum. Drög að reglum um skipan endurlífgunarmála á LSH komu til skoðunar og umsagnar og einnig drög að stefnumótun deildar lyfjamála.
Hjúkrunarráð skipaði fulltrúa í umbótahópa á vegum fræðasviðs hjúkrunar varðandi reglur um gerð og yfirferð fræðslubæklinga fyrir sjúklinga, fulltrúa í framgangsnefnd fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður á vegum hjúkrunarforstjóra og fulltrúa í nefnd um gerð klínískra leiðbeininga fyrir LSH. Hjúkrunarráð kom einnig að kynningu nýs rafræns forms vegna atvikaskráninga með gæðadeild LSH en fulltrúi hjúkrunarráðs í gæðaráði leiddi vinnuhóp sem vann að tillögum um nýtt form atvikaskráninga.
Hjúkrunarráð fékk tækifæri til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við endurskoðun forstjóra á stjórnskipulagi LSH. Þau viðhorf sem koma fram í skýrslu forstjóra um mikilvægi aðkomu læknaráðs og hjúkrunarráðs að ákvarðanatöku varðandi ýmis mál á spítalanum, eru uppörvandi fyrir stjórn hjúkrunarráðs og reyndar fyrir alla hjúkrunarfræðinga og ljósmæður á stofnuninni. Stjórnendur geta reitt sig á að álit hjúkrunarráðs endurspeglar sýn starfsmanna á starfsemi stofnunarinnar og metnað þeirra til góðra verka. Það er afar mikilvægt að upplýsingar um starfsemina berist æðstu stjórnendum svo unnt sé að stjórna af raunsæi.
Stjórn hjúkrunarráðs hefur ítrekað fjallað um óhóflegt álag sem stundum verður á deildunum og í kjölfar þess rætt að gæðamál eru ekki nógu fyrirferðamikil í daglegu starfi á stofnuninni. Starfsfólkinu finnst öryggi sjúklinganna ekki nægilega vel borgið á köflum vegna skorts á starfsfólki annars vegar og vegna yfirlagna á ganga hins vegar. Hefur stjórn hjúkrunarráðs séð sig knúna til að vekja athygli stjórnvalda á þessu ástandi vegna beiðni félagsmanna þar um. Á stofnuninni hefur ríkt ráðningabann sem hefur komið niður á hjúkruninni þó ekki hafi verið um að ræða að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum hafi verið sagt upp.
Víða er undirmannað á deildum sem aftur veldur því að starfsmenn vinna yfirvinnu sem þeir kæra sig ekki um og er stofnuninni dýrkeypt. Hjúkrunarráð lýsir sig fúsa til að taka höndum saman við stjórnendur í þeim tilgangi að auka gæðaeftirlit á þeirri þjónustu sem veitt er á stofnuninni og koma því þannig fyrir að unnt sé að taka í taumana og setja skýr mörk varðandi lágmarks þjónustu við sjúklinga og starfsumhverfi starfsfólksins. Það er einnig áhugamál hjá stjórn hjúkrunarráðs að hægt verði fyrir næsta sumar að koma því í kring að afleysingum verði dreift á deildar eftir þörf hverju sinni og að sveigjanlegra kerfi verði komið á varðandi þennan þátt.
Í desember á síðasta ári kom út skýrsla nefndar sem var skipuð af forstjóra til að skoða stöðu og framtíð ferliverka í framtíð spítalans. Þessi skýrsla opnar leiðir fyrir fleiri fagstéttir á spítalanum til að stunda ferliverk. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa ekki átt þess kost hingað til og hefur skýrslan því orðið tilefni til umræðna og endurskoðunar á fyrirkomulagi hjúkrunar á stofnuninni. Fram til þessa hafa hjúkrunarfræðingar á nokkrum deildum spítalans orðið að gera sé að góðu að leggja fram vinnuframlag til ferliverka sem samstarfsstétt okkar fær ein greitt fyrir. Það er nokkuð ljóst að slíkt fyrirkomulag á ekki framtíð fyrir sér. Í skýrslunni eru notuð hugtök sem þarfnast nánari skýringar af hálfu spítalans. Það eru t.d. hugtök eins og frummeðferðaraðili og frumábyrgð.
Nú hefur forstjóri enn skipað í nefnd sem á að koma með tillögur um tilhögun ferliverka á LSH. og er það vel. Megi sú nefnd bera gæfu til að komast að niðurstöðu sem verður faglegri starfsemi spítalans til framdráttar sem og til þess fallin að samstarf innan stétta og milli stétta gangi snuðrulaust.
Til að segja góðar fréttir af samvinnu fagstétta á Landspítala - háskólasjúkrahúsi þá framseldi lækningforstjóri í febrúar s.l. hjúkrunarforstjóra vald til að veita aðgang að hjúkrunarupplýsingum úr sjúkraskrám. Þykir hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum sem hagur þeirra hafi vænkast.
Það er yfirlýst stefna stjórnenda LSH að auka þjónustu í göngudeildum. Hjúkrunarforstjóri hefur lýst yfir áhuga hjúkrunarstjórnar á að efla hjúkrun í göngudeildum og hefur látið kanna umfang þess framlags sem hjúkrunin leggur þar til.
Á undanförnum mánuðum hefur orðið mikil breyting hvað varðar legudagafjölda per sjúkling. Haldi sú þróun áfram er það sannfæring stjórnar hjúkrunarráðs að það verði á kostnað gæða þjónustunnar.
Því kjósum við að líta á aukna þjónustu í göngudeildum sem tækifæri til að bæta hjúkrun á stofnuninni og veita betri þjónustu en unnt er að gera nú.
Stjórn hjúkrunarráðs vakti athygli á upplýsingarskyldu til sjúklinga varðandi gjaldtöku fyrir þjónustu á bráðamóttökum og göngudeildum. Starfsmenn þar álitu það mjög streituvaldandi hve ómeðvitaðir sjúklingarnir væru um þær breytingar sem hafa orðið varðandi gjaldtöku fyrir læknisverk sem unnin eru á þessum deildum.
Í kjölfar bréfs frá heilbrigðisráðuneytinu til landlæknis í mars s.l. þar sem farið er fram á að fylgst verði sérstaklega með gæðum þjónustunnar sem veitt er á LSH vegna álags á stofnuninni sendi hjúkrunarráð læknaráði bréf þar sem óskað var eftir samvinnu til að bæta úr brýnustu þörf varðandi útskriftarleiðbeiningar til sjúklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir ranga meðferð þegar heim er komið og endurinnlagnir vegna ónógra upplýsinga. Því miður sýndi læknaráð þessu ekki áhuga og mun sú stjórn sem tekur til starfa í hjúkrunarráði eftir þennan aðalfund gera aðra tilraun til samstarfs um þetta mál.
Stjórn hjúkrunarráðs hefur stutt við þá áherslu í stefnu hjúkrunarforstjóra að koma á stöðum klíniskra sérfræðinga í hjúkrun. Þær stöður eru mjög mikilvægar fyrir þróun hjúkrunar samhliða þeirri auknu áherslu sem lögð er á hlutverk spítalans sem háskólasjúkrahúss. Einnig eru stöður klínískra sérfræðinga mikilvægar samhliða þeirri breytingu sem hefur orðið á hlutverki hjúkrunardeildarstjóra í þá átt að þeim er nú falið stærra hlutverk í stjórnun en í klíník. Þessar stöður hafa formlega ekki enn orðið að raunveruleika en við gerum okkur vonir um að stjórnendur öðlist skilning á mikilvægi málsins og hrindi því í framkvæmd svo unnt sé að standa undir þeim kröfum sem eru gerðar til háskólasjúkrahúss.
Á vegum hjúkrunarráðs starfa 4 nefndir.
Þar er fyrst að telja kjörnefnd sem undirbýr og framkvæmir kosningar í stjórn hjúkrunarráðs og nefndir ráðsins.
Fræðslunefnd hefur frumkvæði að og skipuleggur fræðslufundi, námskeið, ráðstefnur og annað er lítur að símenntun starfsfólks á hjúkrunarsviði í samstarfi og samráði við skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar.
Hefur fræðslunefndin staðið fyrir tveimur málþingum á þessu ári, annað í maí s.l. sem fjallaði um öryggi í lyfjagjöfum og hitt í október og fjallaði það um skráningu og skipulagsform í hjúkrun. Voru bæði þingin vel sótt og gerður góður rómur að. Í maí stóð fræðslunefndin einnig fyrir málstofu um ferliverk. Það hefur verið stefna fræðslunefndarinnar að stuðla að umræðu um þau mál sem mest steitir á hverju sinni.
Rannsóknarnefnd fjallar um rannsóknir þar sem hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk á hjúkrunarsviði eru þátttakendur. Á þessu starfsári nefndarinnar voru átta beiðnir afgreiddar, þar af þrjár viðamiklar sem voru rannsóknir til meistaraprófs. Eins og kom fram á aðalfundi á síðasta ári eru nefndarmenn sem eru fjórir, sammála því að þessi nefnd eigi að leggjast niður. Ekki hefur tekist að ljúka því ætlunarverki en unnið er að því. Er formaður nefndarinnar Anna Gyða Gunnlaugsdóttir ásamt starfsmönnum frá skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar að vinna að tillögum að framtíðarfyrirkomulagi á umfjöllunum um rannsóknir á LSH.
Stöðunefnd hjúkrunarráðs tekur til umfjöllunar starfsumsóknir um stöður hjúkrunardeildarstjóra / yfirljósmóður og sérfræðinga á hjúkrunarsviði skv. beiðni hjúkrunarforstjóra hverju sinni.
Á þessu starfsári hefur stöðunefndin tekið til umfjöllunar starfsumsóknir um sjö deildarstjórastöður í hjúkrun. Að meðaltali voru 3 umsóknir um hverja stöðu. Fer mat nefndarinnar alfarið eftir innsendum gögnum Ef fleiri en einn hæfur umsækjandi er um stöðuna raðar stöðunefndin eftir hæfi. Álit stöðunefndar er sent viðkomandi sviðsstjóra og afrit sent til formanns hjúkrunarráðs.
Samkvæmt beiðni stjórnar hjúkrunarráðs vann stöðunefndin leiðbeiningar fyrir umsækjendur um stjórnunarstöður í hjúkrun og eru þær á innra neti spítalans á heimasíðu hjúkrunarráðs.
Ég læt nú staðar numið um umfjöllunarefni stjórnar hjúkrunarráðs. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að starfa sem formaður hjúkrunarráðs síðastliðin tvö ár og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir mig þar sem ég gef ekki kost á mér áfram. Ég þakka þeim fulltrúum sem hafa verið með mér í stjórn hjúkrunarráðs og eins stjórnendum Landspítala - háskólasjúkrahúss sem hafa gert starf okkar mögulegt. Við höfum reynt að gera okkar besta og fundið hljómgrunn. Komandi stjórn óska ég velfarnaðar.
Takk fyrir,
- Steinunn Ingvarsdóttir
Ágætu fundarmenn , þær starfsreglur hjúkrunarráðs sem voru samþykktar af stjórnarnefnd í febrúar 2002 hafa nú verið prufukeyrðar og hafa komið í ljós ákveðnir vankanntar sem sníða þarf af að áliti stjórnar hjúkrunarráðs.
- Í kjölfar ákvörðunar yfirstjórnenda um að klíniskt þjónustusvið verði lagt niður er þörf á breytingu í texta
-Reglurnar gera ráð fyrir að allir stjórnarmenn séu kosnir til tveggja ára í senn og geti þess vegna allir hætt störfum um leið. Það er augljóst að slíkt fyrir komulag er óheppilegt. Við gerum því að tillögu okkar að inn í 3. greinina verði bætt texta sem gerir ráð fyrir skörun.
-Einnig leggjum við til að kjörtímabil geti undir ákveðnum kringumstæðum orðið fimm ár í stað fjögurra komi upp sú staða að fulltrúi sem þegar hefur setið 1 ár bjóði sig fram í annað hlutverk innar stjórnar hjúkrunarráðs.Væri honum samkvæmt núverandi reglum gert ómögulegt að bjóða sig fram aftur að tveim árum liðnum.
Sýna glæru.
5. grein starfsreglnanna fjallar um hlutverk nefnda.
Við leggjum til breytingar varðandi kjörnefnd í þeim tilgangi að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð.
Stöðunefndin hefur gert verklagsreglur varðandi störf sín og er þar gert ráð fyrir að mat á hæfi umsækjenda fari alfarið eftir innsendum gögnum. Því gerum við að tillögu okkar að síðasta málsgreinin falli niður en þar er gert ráð fyrir að stöðunefnd geti leitað álits varðandi mat á hæfi.