Táknmálstúlkur túlkaði ávarp Björns Zoëga forstjóra á fundi hans á Landspítala Tunguhálsi 13. október 2011. Það var síðasti af 9 fundum þann dag þar sem forstjórinn gerði grein fyrir rekstraráætlun 2012 og þeim breytingum sem óhjákvæmilegar væru á starfsemi spítalans vegna krafna í fjárlagafrumvarpinu um 630 milljóna króna niðurskurð.
Á saumastofu spítalans að Tunguhálsi er heyrnarlaus starfsmaður og sá Hólmfríður Þóroddsdóttir um að túlka fyrir hann það sem forstjóri spítalans hafði fram að færa á starfsmannafundinum. Saumastofan fékk árið 2010 sérstaka viðurkenningu Félags heyrnarlausra fyrir að skara fram úr í viðhorfi og viðmóti við heyrnarlausa.