"Gæði umönnunar, þróun á heilsufari, færni og lifun á íslenskum hjúkrunarheimilum á árunum 1996-2009" er yfirskrift doktorsverkefnis sem Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðingur á lyflækningasviði Landspítala, varði við heilbrigðisvísindadeild læknadeildar Háskólans í Lundi föstudaginn 27. janúar 2012.
Leiðbeinendur hennar voru prófessor Ingalill Rahm Hallberg, dr. Anna Kristensson Ekwall og dr. Per Nyberg. Andmælendur voru prófessor Margareta Ehnfors, Háskólanum í Örebro, prófessor Anders Wimo, Karolinska Institudet, Stokkhólmi, prófessor Anna Ehrenberg, Háskólanum í Lundi og prófessor Gerd Ahlström, Háskólanum í Lundi.
Um doktorsverkefnið
Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að kanna heilsufar (stöðugleika heilsufars, verki, þunglyndi og vitræna getu), færni (athafnir daglegs lífs og virkni) og spáþætti fyrir andláti hjá íbúum á íslenskum hjúkrunarheimilum yfir ákveðið tímabil. Auk þess að ákvarða efri og neðri gæðaviðmið fyrir Resident Assessment Instrument (RAI) gæðavísa, kanna algengi gæðavísa á ákveðnum tímabilum og tengsl þeirra við heilsufar og færni íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum.
Verkefnið byggði á fjórum rannsóknum. Úrtakið í rannsókn I og II voru 2.206 íbúar á íslenskum hjúkrunarheimilum sem metnir höfðu verið með RAI mati innan 90 daga frá komu á árabilinu 1996-2006. Í rannsókn III var notuð Delphy aðferð til að ákvarða gæðaviðmið fyrir RAI gæðavísa og niðurstöður RAI gaðavísa fyrir 2.247 íbúa sem dvöldu á hjúkrunarheimili árið 2009 skoðaðar. Í rannsókn IV voru skoðuð 11.034 RAI möt sem gerð höfðu verið fyrir 3.694 íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum yfir árabilið 2003-2009.
Niðurstöður doktorsverkefnisins sýna að vitræn færni íbúa sem nýlega höfðu flutt á hjúkrunarheimili hvert ár varð betri en heilsufar varð óstöðugra yfir tímabilið 1996-2006. Enn fremur að aldraðir einstaklingar með tiltölulega litla umönnunarþörf fluttu inn á hjúkrunarheimili og tæpur helmingur íbúanna lifði lengur en 3 ár á hjúkrunarheimili. Hluti þeirra sem flutti á hjúkrunarheimili hefði því hugsanlega getað dvalið lengur heima ef hann hefði fengið endurhæfingu og heimaþjónustu við hæfi. Stöðugleiki heilsufars og færni í athöfnum daglegs lífs (ADL) reyndust vera mikilvægir spáþættir fyrir andlát og því gagnlegir til að kanna þegar þörf fyrir hjúkrunarheimilisdvöl eða aðra þjónustu er metin. Umönnunarþörf þeirra sem fluttu á hjúkrunarheimli var mjög breytileg og lést um þriðjungur íbúa strax á fyrsta ári eftir flutning á hjúkrunarheimili. Þetta bendir til þess að margir íbúar hafi þurft á líknandi meðferð eða lífslokameðferð að halda strax við flutning á hjúkrunarheimili. Hugmyndafræði líknandi meðferðar getur því vel átt við á hjúkrunarheimilum jafnframt áherslu á að viðhalda færni.
Við ákvörðun gæðaviðmiða fyrir íslensk hjúkrunarheimili var tekið mið af raunverulegum niðurstöðum hjúkrunarheimila og ættu því að vera raunhæf. Verulegur hluti íbúa var ekki með þau vandamál sem tilgreind eru í gæðavísunum en þó að hlutfall margra gæðavísa hafi verið lágt þá eru sumir þeirra þess eðlis að jafnvel lág prósenta getur verið óásættanleg. Yfir rannsóknartímabilið sást að hlutfall íbúa sem voru með ákveðna gæðavísa var hækkandi í 16 RAI gæðavísum af 20, sem er vísbending um minnkandi gæði. Hlutfall íbúa sem var með gæðavísinn þvag- eða hægðaleka án reglubundinna salernisferða lækkaði þó úr 17,4% árið 2003 í 11,5% árið 2009 sem er vísbending um bætt gæði. Bestum árangri náðu hjúkrunarheimilin í umönnun sem tengdist næringu íbúa og í meðferð við hægða- og þvagleka. Vaxandi hlutfall þeirra íbúa sem voru með einkenni gæðavísis yfir árabilið 2003-2009 var hins vegar að hluta til tengt heilsufari þeirra og færni. Sú umönnun og meðferð sem hjúkrunarheimili á Íslandi þurfa að leggja áherslu á að bæta er greining þunglyndis, lyfjameðferð við þunglyndi og hjúkrun íbúa með einkenni þunglyndis. Lyfjameðferð íbúa þarf að endurskoða m.t.t. gagnreyndrar meðferðar og fjöllyfjameðferðar. Enn fremur þarf að endurskoða virkni og afþreyingu íbúa og þá sérstaklega m.t.t. íbúa sem eru með skerta vitræna getu og skerta færni.
Heilsufarsupplýsingar og upplýsingar um gæði sem safnað er yfir lengri tímabil gefa ábendingar um í hvað átt þjónustan hefur þróast og slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir opinbera aðila og þá sem skipuleggja þjónustu á hjúkrunarheimilum. Upplýsingar um þróun yfir lengri tíma geta gefið til kynna þróun á þjónustu sem annars yrði ekki uppgötvuð en mjög mikilvægt getur verið að bregðast við. Nauðsynlegt er að fylgjast áfram með þróun gæða á íslenskum hjúkrunarheimilum sem og flóknu samspili heilsufars og færni íbúa og í því skyni kemur RAI mælitækið að góðum notum.