Spron sjóðurinn hefur gefið 30 milljónir króna til endurnýjunar á vöktunartækjum gjörgæsludeildarinnar við Hringbraut en verið var að slíta þessum sjóði. Núverandi tækjabúnaður er kominn verulega til ára sinna því hann var keyptur fyrir rúmum 18 árum og þótt hann hafi verið uppfærður reglulega var þörf á endurnýjun orðin mjög brýn. Gjöfin nýtist til algerrar endurnýjunar og fást nýir og fullkomnir vaktarar af gerðinni Philips fyrir hvert af 11 rýmum deildarinnar, auk ýmissa fylgihluta, þar á meðal ferðavaktara.
Hver einasti sjúklingur sem kemur á gjörgæsludeildina er tengdur við vöktunartæki (vaktara) þar sem fylgst er stöðugt með blóðþrýstingi, hjartalínuriti, súrefnismettun, miðbláæðaþrýstingi og fleiri flóknari atriðum eftir því sem ástand sjúklingsins krefur. Vaktarar eru þannig hornsteinn í tækjabúnaði deildarinnar og oftast forsenda ákvarðanatöku um meðferð sjúklingsins.