Lyfjalisti LSH 2004 hefur verið birtur á spítalanum í frumdrögum.
Starfshópur sem skipaður var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um átak í lyfjamálum heilbrigðisstofnana skilaði áfangaskýrslu í lok nóvember 2003. Meðal þess sem þar var lögð áhersla á var að á öllum heilbrigðisstofnunum væri lyfjalisti sem byggði á klínískum leiðbeiningum, upplýsingum um virkni, öryggi og gæði lyfja og upplýsingum um verð. Slíkir lyfjalistar eru taldir gagnlegir frá faglegu og kostnaðarlegu sjónarmiði. Þó að um takmörkun við val á lyfjalista sé að ræða verður tekið tillit til sérþarfa.
Í samræmi við tillögur ráðherranefndarinnar hefur undanfarna mánuði verið unnið unnið hörðum höndum að gerð lyfjalista á LSH og hefur hann nú verið birtur. Einstakir þættir hans hafa verið bornir undir yfirlækna og sérfræðinga eftir því sem við hefur átt. Listinn hefur verið sendur öllum læknum sjúkrahússins, deildarstjórum hjúkrunar og lyfjafræðingum sem gefst tækifæri á að koma með ábendingar til þjónustudeildar lyfjasviðs, t.d. um lyf sem vanti á listann. Á honum eru þau lyf sem miðað er við að séu að jafnaði notuð á LSH og ávallt til í apóteki spítalans. Önnur lyf verða útveguð ef óskum um það fylgir fullnægjandi rökstuðningur.