Við undirritun: Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss,
Anna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á spítalanum, Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra,
Gunnhildur Sigurðardóttir formaður stjórnar sjúkrahótelsins og Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra og fulltrúar Landspítala - háskólasjúkrahúss og Rauða kross Íslands hafa skrifað undir samning um stækkun og aukna þjónustu á sjúkrahóteli Rauða krossins að Rauðarárstíg 18. Nú er húsrúm fyrir 32 gesti á hótelinu en með samkomulaginu verður bætt við 22 herbergjum. Þá verður í fyrsta sinn veitt hjúkrunarþjónusta og hefur Bergdís Kristjánsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri ráðist til að veita starfseminni forstöðu.
Rauði kross Íslands hefur frá árinu 1974 rekið sjúkrahótel, einkum fyrir landsbyggðafólk sem sækir sjúkraþjónustu í Reykjavík og þarf ekki að dvelja á sjúkrahúsi. Stækkun hótelsins er langþráður áfangi, en kannanir hafa sýnt að margir þeirra sem hingað til hafa dvalið á sjúkrahúsi hefðu getað gist á sjúkrahóteli með hjúkrunarþjónustu, sem er mun ódýrara og því þjóðhagslega hagstæðara.