Velunnarar Vonar, félags til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildar Landspítala Fossvogi, taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 20. ágúst 2011, í fjórða sinn. Á gjörgæsludeildinni liggja alvarlega veikir og mikið slasaðir sjúklingar, börn sem fullorðnir.
"Von er styrktarfélag, stofnað haustið 2007 af hjúkrunarfræðingum deildarinnar. Stuðningur við þá sem standa frammi fyrir áföllum í lífinu er mikilvægur þáttur í starfi deildarinnar. Hverjum sjúklingi fylgja margir aðstandendur, áætlað um 1.300 árlega. Það að vera aðstandandi sjúklings á gjörgæsludeild er mikið álag, bæði líkamlegt sem andlegt og biðin eftir bata getur oft verið erfið og löng. Mikil óvissa getur fylgt afdrifum sjúklinga. Stuðningur við þá sem standa frammi fyrir áföllum í lífinu er því mikilvægur þáttur í starfi Vonar. Verkefni okkar eru fyrst og fremst að bæta aðstöðu skjólstæðinga okkar og gera þeim kleift að vera í sem besta mögulega umhverfi á þeirra erfiðu tímum. Við höfum m.a endurnýjað aðstandendaherbergið, látið smíða skápa með læstum hirslum, bætt hvíldar- og svefnaðstöðu, sjónvarp, tölvuaðgang, aðstöðu til að neyta matar svo dæmi séu tekin. Von veitir reglulega styrki til skjólstæðinga sinna sem oft hafa átt við alvarleg og langvarandi veikindi að etja. Korta- og minningarkortasala er einnig til staðar."
Hægt er að heita á þá hlaupara sem hafa valið að hlaupa í þágu Vonar en allar nánari upplýsingar um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka má finna á www.marathon.is. Hægt er að velja mismunandi vegalengdir, þ.e. 3 kílómetra skemmtiskokk eða barnahlaup, 10 kílómetra, 21 kílómetra hálfmaraþon, maraþon eða boðhlaup (42,2 km).