Að undanförnu hefur óvenju mikið reynt á starfsfólk Landspítala - háskólasjúkrahúss vegna mikilla veikinda sem hafa herjað á landsmenn. Víða hefur þurft að grípa til sérstakra ráðstafana á spítalanum til að mæta brýnni þörf, meðal annars með því að fjölga rúmum, koma upp sérstakri tímabundinni aðstöðu til að þjóna sjúklingum og kalla starfsfólk til vinnu í frítíma sínum. Starfsmenn sjúkrahússins hafa leitast við að sinna sjúklingum sem best og leyst verkefnið ákaflega vel. Fyrir það fórnfúsa starf færum við ykkur innilegar þakkir. Vonandi fer að draga úr þessu álagi svo starfsemi spítalans færist aftur í eðlilegt horf. Þetta álag á spítalann hefur haft nokkur áhrif á hefðbundna starfsemi, t.d hefur þurft að fresta skurðaðgerðum. Sumir biðlistar lengjast því eitthvað en komast vonandi fljótt aftur í jafnvægi. Ákveðið hefur verið að draga saman í skýrslu hvaða áhrif þessar sérstöku aðstæður hafa haft á starfsemi LSH og þann auka kostnað sem því fylgir. En víst er að starfsmenn sjúkrahússins hafa staðið fyrir sínu og fyrir það erum við ákaflega þakklátar.
Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri
Vilhelmína Haraldsdóttir lækningaforstjóri
Vilhelmína Haraldsdóttir lækningaforstjóri