Hjúkrunarráð Landspítala bókaði eftirfarandi á fundi sínum 6. september 2011 um mikið álag á Landspítala í sumar.
Meira álag var á almennum deildum Landspítalans í júlí og ágúst 2011 heldur en oft áður á sumarleyfistíma. Rúmanýting var víða yfir 100% og vinnuálag óásættanlegt. Ljóst er að erfitt er að eiga við þetta vandamál þar sem ekki fengust nægilega margir hjúkrunarfræðingar og hjúkrunarnemar til sumarafleysinga. Hjúkrunarráð vill benda á nokkrar leiðir til úrbóta:
- Sumarlokanir heilbrigðisstofnana verði skipulagðar af heilbrigðisyfirvöldum, þannig að ekki dragi allir úr starfsemi á sama tíma.
- Hafa sérstök úrræði fyrir sjúklinga sem lokið hafa meðferð og geta ekki útskrifast heim.
- Öflugri heimaþjónustu. Erfitt reyndist að útskrifa sjúklinga sem t.d. þurftu lyfjagjafir í æð 2.-3. á sólarhring eða aðra þjónustu, þar sem heimahjúkrun hafði ekki bolmagn til að sinna því.
- Sjá til þess að sólahringsþjónusta hjúkrunarfræðinga sé til staðar á sjúkrahóteli LSH.
- Bæta vinnuferla varðandi útskriftir sjúklinga og samskipti við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Ef sjúklingar þurfa sérstök hjálpartæki, lyf eða hjúkrunarvörur eftir að heim er komið, tekur allt of langan tíma að fá vilyrði frá SÍ. Stundum þurfa sjúklingar því að fá með sér af Landspítalanum hjúkrunarvörur og lyf til að mögulegt sé að útskrifa þá.
- Búa þannig að 3. árs hjúkrunarnemum varðandi kjör og aðbúnað að þeir ráði sig í sumarvinnu á Landspítalann.
- Efla umræðu í samfélaginu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.