Hjúkrunarráð og læknaráð LSH hafa sent formönnum stjórnmálaflokka sem bjóða fram til alþingiskosninga 12. maí 2007 bréf með 8 spurningum sem óskað er svara við. Friðbjörn Sigurðsson formaður læknaráðs og Álfheiður Árnadóttir formaður hjúkrunarráðs rita undir bréfið. Megin efni þess fylgir hér fyrir neðan:
Það vekur furðu í aðdraganda alþingiskosninganna í vor hversu lítið heilbrigðismál hafa verið til umræðu. Heilbrigðismál eru mikilvægur málaflokkur í samfélagi okkar og einn sá kostnaðarsamasti. Því er mjög brýnt fyrir almenning og nærri 5000 starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahússins, auk annarra heilbrigðisstarfsmanna, að fá skýr svör stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til alþingiskosninga þann 12. maí nk. við ýmsum atriðum heilbrigðisþjónustunnar. Því óskum við vinsamlega eftir svörum við eftirfarandi spurningum.
Til þess að sem flestir starfsmenn LSH og almenningur geti kynnt sér svörin verða þau birt á upplýsingavef sjúkrahússins, www.landspitali.is, föstudaginn 4. maí nk.
1. Hvernig hyggst flokkurinn tryggja fjármagn til byggingar nýs háskólasjúkrahúss (þjóðarsjúkrahúss). Hvenær á framkvæmdum að vera lokið?
2. Hvernig vill flokkurinn stuðla að lausn á húsnæðisvanda sjúkrahússins þar til nýtt háskólasjúkrahús rís.
3. Hvernig ætlar flokkurinn að bregðast við manneklu í heilbrigðisstéttum, svo sem hjúkrun?
4. Hvað ætlar flokkurinn að gera til þess að byggja upp nauðsynlega þjónustu utan spítalans (til dæmis hjúkrunarheimili eða félagsleg úrræði) svo að sjúklingar þurfi ekki að dvelja óeðlilega lengi á spítalanum eftir að meðferð lýkur.
5. Hvað telur flokkurinn þurfa að gera þurfi til þess að styrkja rekstur sjúkrahússins fjárhagslega? Vill flokkurinn breyta fjármögnun spítalans með því að tengja fjármögnun við umfang starfseminnar (DRG)?
6. Hver er afstaða flokksins til einkarekstrar eða útboða einstakra verkefna í heilbrigðisþjónustu ? (hér er ekki spurt um almannatryggingakerfið eða einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar)
7. Hver er afstaða þíns flokks til flutnings tryggingamála frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis?
8. Ef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kemur í hlut flokksins eftir kosningar, hver verða þá forgangsverkefnin?