Eiríkur Steingrímsson
Eiríkur Steingrímsson fékk verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði sem afhent voru á ársfundi Landspítala 2009. Verðlaunin námu 2,5 milljónum króna. Þetta eru líklega stærstu verðlaun sem eru veitt fyrir árangur í vísindarannsóknum hér á landi.
Sjóðurinn var stofnaður af læknunum Árna Kristinssyni og Þórði Harðarsyni árið 2003 og er m.a. ætlað að veita verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum í læknisfræði og skyldum greinum. Verðlaunin eru einkum ætluð vísindamönnum sem starfa við Landspítala og Háskóla Íslands.
Ferill: Eiríkur lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og doktorsprófi frá líffræðideild Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) árið 1992. Rannsóknir hans þar beindust að fósturþroskun ávaxtaflugunnar Drosophila melanogaster. Eiríkur starfaði síðan við Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (National Cancer Institute) í Frederick, Maryland þar sem hann rannsakaði þroskun og erfðir músa. Frá 1997 hefur hann gegnt stöðu prófessors við læknadeild Háskóla Íslands. Hann er félagi í European Molecular Biology Organization (EMBO) en það eru virtustu samtök Evrópu á sviði sameindalífvísinda.
Rannsóknir: Rannsóknir Eiríks fjalla einkum um stjórnun þroskunar, þ.e. hvernig tilteknar frumur líkamans verða til. Athygli hans hefur einkum beinst að litfrumum og þeim stjórnpróteinum sem stýra myndun og starfsemi þeirra. Litfrumur gefa húð og hári lit sinn og eru að mörgu leyti ákjósanlegar til rannsókna á þroskun fruma. Þessar frumur geta einnig myndað krabbamein sem nefnast sortuæxli og hefur komið í ljós, m.a. í rannsóknum Eiríks, að sömu stjórnprótein koma við sögu í myndun sortuæxla og stjórna eðlilegri myndun litfruma. Rannsóknirnar gegna því mikilvægu hlutverki, bæði við að bæta þekkingu okkar á myndun fruma en einnig hafa þær læknisfræðilega tengingu. Mörg verkefna Eiríks eru unnin í samstarfi við erlendar vísindastofnanir.
Eiríkur Steingrímsson (vefur Háskóla Íslands)