Eftirlitsnefnd með rafrænni sjúkraskrá á Landspítala gerði athugasemd við uppflettingu níu starfsmanna við reglubundna athugun á notkun hennar. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar til framkvæmdastjóra lækninga vegna notkunar sjúkraskrár síðastliðna 6 mánuði. Nöfn starfsmannanna voru send framkvæmdastjórum viðkomandi sviða sem leituðu skýringa á uppflettingunum. Í þremur tilfellum af þessum níu reyndist um eðlilegan aðgang að ræða en sex starfsmenn fengu áminningu.
Samkvæmt erindisbréfi skal eftirlitsnefnd með rafrænni sjúkraskrá gera reglubundnar athuganir á því hvort starfsmenn sem opna sjúkraskrár eigi þangað eðlilegt erindi, framkvæma úttektir á sjúkraskrám, sem valdar eru af handahófi, sinna upplýsingaöflun um aðgengi að einstökum sjúkraskrám, skv. ábendingum framkvæmdastjóra lækninga og hafa frumkvæði að því að skoða opnanir sjúkraskráa valdra einstaklinga. Farið var yfir slembiúrtak 50 lækna og 100 hjúkrunarfræðinga.