Fréttatilkynning 28. nóvember 2003.
Sigurður Björnsson krabbameinslæknir hefur gengið að skilyrðum sem sett hafa verið fyrir því að gegna störfum yfirlæknis við Landspítala - háskólasjúkrahús. Í framhaldi af því hafa forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga ákveðið að hann taki aftur við starfi sem yfirlæknir lyflækninga krabbameina.
Sigurður Björnsson sendi í dag frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
"Með tilliti til hagsmuna sjúklinga minna hef ég ákveðið að draga til baka stjórnsýslukæru mína til HTR dags. 17. nóv. sl. og jafnframt dreg ég til baka bréf mín sem ég hef sent frá mér vegna deilna minna við spítalann frá og með 20. október s.l. Jafnframt lýsi ég því yfir að ég hætti að sinna sjúklingum á læknastofu minni þann 4. nóvember s.l. og mun ekki sinna þar sjúklingum að öllu óbreyttu. Um þessa ákvörðun mína hef ég sent Tryggingastofnun ríkisins bréf, sbr. hjálagt afrit. Þetta geri ég að því gefnu að ég taki nú þegar aftur við yfirlæknisstöðu minni með öllum réttindum og skyldum sem þeirri stöðu fylgja."
Í nefndu afriti af bréfi til Tryggingastofnunar ríkisins lýsir Sigurður yfir því að hann muni "...ekki sinna fleiri sjúklingum á stofu sinni og þ.a.l. ekki starfa fyrir Tryggingastofnun ríkisins að öllu óbreyttu."
Þann 17. nóvember síðastliðinn tók Helgi Sigurðsson, yfirlæknir Krabbameinsmiðstöðvar LSH, til starfa tímabundið sem yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, eftir atburðarás sem leiddi af bréfi Sigurður Björnssonar, þáverandi yfirlæknis, dags. 20. október 2003. Í því tilkynnti Sigurður að hann teldi sig ekki bundinn af samkomulagi sem hann hafði gert við yfirstjórn spítalans um að hætta stofurekstri sínum 1. nóvember 2003.
Það er afdráttarlaus stefna Landspítala - háskólasjúkrahúss að þeir sem gegna yfirlæknisstöðum stundi ekki á sama tíma eigin stofurekstur og var Sigurður því færður úr starfi yfirlæknis í starf sérfræðings.
Í ljósi ofangreindrar yfirlýsingar Sigurðar Björnssonar hafa forstjóri LSH og framkvæmdastjóri lækninga ákveðið að Sigurður taki nú þegar aftur við starfi yfirlæknis lyflækninga krabbameina á lyflækningasviði II.
Í þeirri umræðu sem verið hefur undanfarna daga í tengslum við mál yfirlæknis lyflækninga krabbameina hafa fjölmargir lýst stuðningi við þá stefnu sem LSH hefur markað um hlutverk og skyldur þeirra sem ráðast til starfa sem yfirmenn á stofnuninni. Lausn þess deilumáls sem staðið hefur að undanförnu styrkir þá stefnu sem mótuð var af framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd.
Eftirtaldar ástæður hafa verið tilgreindar fyrir því að yfirlæknar séu ekki með stofurekstur á sama tíma og þeir gegna stjórnunarstöðu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi:
- Almennt er það talið í anda góðrar stjórnsýslu að yfirmenn stofnunar eigi ekki hagsmuna að gæta utan hennar og séu helgaðir þeirri stofnun sem þeir eru ráðnir til sem forystumenn.
- Líta verður á starf yfirlæknis sérgreinar sem ábyrgðarmikið og erilssamt starf sem krefst óskiptra starfskrafta, enda til þess ætlast að því sé sinnt af alúð.
- Stjórnunarleg áhrif lækna innan spítalans hafa af mörgum verið talin fara dvínandi. Rök má leiða að því að það geti m.a. átt rót sína að rekja til hlutastarfa lækna og faglegra og fjárhagslegra hagsmuna þeirra utan stofnunar. Ákvörðun um að yfirlæknar séu í fullu starfi við spítalann er til þess fallin að styrkja stjórnunarhlutverk þeirra.
- Af yfirlæknum er vænst að þeir séu leiðandi fyrir sérgrein sína, þar með talið hinn akademíska þátt, kennslu og rannsóknir. Fullt starf yfirlækna styrkir, og er nánast forsenda fyrir, eflingu akademískrar starfsemi á sjúkrahúsinu.
- Efling göngudeilda við spítalann er yfirlýst stefna LSH. Lítil von er til þess að sú stefna komist til framkvæmda innan þeirra sérgreina þar sem stjórnandinn hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að svo verði ekki.