Dr. Richard Malley, prófessor í barnalækningum við Harvard Medical School í Bandaríkjunum heldur fyrirlestur í boði ónæmisfræðideildar Landspítala, læknadeildar Háskóla Íslands, Ónæmisfræðifélags Íslands og Félags íslenskra ofnæmis- og ónæmislækna. Yfirskriftin er "Antibody and T-cell mediated protection against Streptococcus pneumoniae: Implications for future vaccine development".
Fyrirlesturinn verður í Hringsal, Landspítala Hringbraut fimmtudaginn 22. september 2011 og hefst kl. 15:00. Allir eru velkomnir.
Dr. Richard Malley er barnalæknir, afkastamikill í rannsóknum á ósérhæfðum og sérhæfðum ónæmisviðbrögðum gegn pneumókokkum. Hann sýndi fyrstur fram á mikilvægi CD4+ T-frumna (Th17) og IL-17A í vörn gegn bólfestu pneumókokka í nefkoki. Hann sýndi líka fyrstur að pneumólýsin, eitt aðaleitur pneumókokkabakteríunnar, binst Toll-líkum viðtaka 4 (TLR4). Dr. Malley hefur unnið að þróun bóluefnis úr heilli pneumókokkabakteríu sem er í fyrsta fasa klínískra prófana. Rannsóknir hans beinast einkum að hlutverki T-frumna í vernd gegn pneumókokkasýkingum, frekari þróun breiðvirkra pneumókokkabóluefna, samkiptum pneumókokkapróteina við TLR og möguleikum á að nýta þá við þróun nýrra ónæmisglæða. Hann hefur einnig unnið að rannsóknum á eflingu ónæmissvara gegn öðrum sýklum. Dr. Malley hefur birt tugi vísindagreina í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum, flestar um ónæmissvör við sýkingum og bólusetningum.
Dr. Richard Malley verður andmælandi við doktorsvörn Þórunnar Ástu Ólafsdóttur, sem fer fram föstudaginn 23. september kl. 10:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Doktorsritgerð Þórunnar Ástu ber titilinn Ónæmissvör nýbura við bólusetningu: Nýir ónæmisglæðar og ónæmisvakar til verndar gegn pneumókokka- og inflúensusjúkdómum