Linn Getz, trúnaðarlæknir á mannauðssviði Landspítala, hlaut norrænu rannsóknarverðlaunin í heimilislækningum (Nordic Research Price in Family Practice) árið 2011. Linn starfar einnig sem dósent í heimilislæknisfræði við háskólann í Þrándheimi í Noregi.
Verðlaunin nema 100 þúsund dönskum krónum og hefur á síðastliðnum 20 árum verið úthlutað annað hvert ár til lækna sem hafa skarað framúr varðandi framþróun í heimilislækningum, einkum á sviði rannsókna og nýsköpunar fagsins á Norðurlöndum og víðar.
Í mati dómnefndar kemur fram að núverandi verðlaunahafi hafi á síðustu árum átt verulegan þátt í að koma nýjum hugmyndum um mikilvægi fagsins á framfæri og hafi á stuttum starfsferli sínum skapað sér verðugan sess meðal heimilislækna.
Linn Getz hefur m.a. verið eftirsóttur aðalfyrirlesari á Norðurlöndunum og á Evrópuþingi í heimilislækningum (Wonca). Rannsóknarsvið Linn hefur einkum verið um læknisfræðilegt mat á áhættu, mikilvægi mannlegara samskipta og samspil lífsreynslu og líffræðilegra áhrifa á líkamann. Þar kemur einkum fram að upplifanir einstaklingsins geta skipt máli fyrir heilsufar hans og þróun sjúkdóma til lengri eða skemmri tíma.
Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á „17th Nordic Congress of General Practice“ 17. júní 2011 í Tromsö í Noregi.