Á árlegum vitundarvakningardegi Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) verður föstudaginn 18. nóvember 2011 minnt á þá hættu sem mönnum stafar af sýklalyfjaónæmum bakteríum og hvatt til ábyrgrar notkunar sýklalyfja.
Hvað er vandamálið?
Bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum eru daglegt vandamál á sjúkrastofnunum um alla Evrópu.
- Ómarkviss notkun sýklalyfja getur valdið því að ónæmar bakteríur taki sér bólfestu í sjúklingum og valdi sýkingum. Dæmi um slíkt eru stafylókokkar, sem eru ónæmir fyrir meticillíni (MÓSAr), þarmabakteríur, sem eru ónæmar fyrir vancomycini (VRE), og afar ónæmar Gram neikvæðar bakteríur.
- Ómarkviss notkun sýklalyfja tengist aukinni tíðni sýkinga af völdum Clostridíum difficile.
- Ástæður þess að ónæmar bakteríur dreifa sér og ógna öryggi sjúklinga á sjúkrahúsum eru:
- Sýklalyfjaónæmar bakteríur valda sýkingum og leiða til aukinnar sjúkdómsbyrði, dánartíðni og lengri sjúkrahúsdvalar.
- Óheppilegt val sýklalyfja og tafir á meðferð sem haft getur alvarlegar afleiðingar í för með sér.
- Takmarkað úrval virkra sýklalyfja sem aftur takmarkar meðferðarmöguleika.
Hvernig stuðlar notkun sýklalyfja að þessum vanda?
- Flestir sjúklingar sem liggja á sjúkrahúsum fá sýklalyfjagjöf og um helmingur allra sýklalyfja sem er ávísað á sjúkrahúsum er ekki við hæfi.
- Ómarkviss notkun sýklalyfja er veigamikil ástæða fyrir myndun sýklalyfjaónæmis og kann að stafa af:
- Óþarfa ávísunum á sýklalyf.
- Of þröngri eða of breiðri virkni ávísaðra sýklalyfja.
- Of lítilli eða of mikilli gjöf sýklalyfja miðað við þarfir sjúklings.
- Of löngum eða of stuttum tíma sem sýklalyf eru gefin.
- Óbreyttri sýklalyfjagjöf þegar rannsóknarniðurstöður leiða í ljós að breytinga sé þörf.
Hvers vegna þarf að hvetja til skynsamlegrar notkunar sýklalyfja?
- Skynsamleg notkun sýklalyfja getur komið í veg fyrir myndun sýklalyfjaónæmis hjá bakteríum.
- Minni sýklalyfjanotkun dregur úr tíðni á Clostridium difficile sýkingum.
Hvernig er hægt að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja?
- Sífelld fræðsla, leiðbeiningar um notkun, stefnumótun, takmörkun á notkun sýklalyfja og ráðgjöf frá sérfræðingum í smitsjúkdómum, sýklafræðingum og lyfjafræðingum getur leitt til markvissari ávísana og minnkaðs sýklalyfjaónæmis.
- Vöktun og skráning sýklalyfjaónæmis á sjúkrahúsum veitir mikilvægar upplýsingar sem nýta má til að leiðbeina við val á sýklalyfjum til fyrstu meðferðar alvarlega veikra sjúklinga.
- Rétt tímasetning og rétt tímalengd fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferðar fyrir skurðaðgerðir minnkar líkur á sýkingum á skurðstað og myndun fjölónæmra baktería.
- Niðurstöður rannsókna sýna að stuttur meðferðartími þarf ekki að hafa áhrif á batahorfur sjúklings en getur hins vegar dregið úr líkum á myndun sýklalyfjaónæmis.
- Með því að taka sýni í sýklagreiningu (ræktun) áður en meðferð hefst, fylgjast með ræktunarniðurstöðu og laga meðferð að niðurstöðunni er unnt að draga úr óþarfa sýklalyfjameðferð.
Skylt efni:
Upphafsmeðferð sýkinga (samantekt Bryndísar Sigurðardóttur smitsjúkdómalæknis í júlí 2010)
European Antibiotic Awareness Day 2011 (vefur European Centre for Disease Prevention and Control)