Valgarður Egilsson læknir á Landspítala leggur sitt til geisladiskaflóðsins fyrir jólin 2007. Hann hefur nú lesið inn á geisladisk ljóðabók sína Á mörkum sem kom út síðastliðið vor hjá JPV forlagi og er diskurinn nýkominn út. Höfundur gefur geisladiskinn út sjálfur. Á honum eru öll ljóð bókarinnar, þrjátíu og eitt að tölu. "Á mörkum" er þriðja ljóðabók Valgarðs. Árið 1988 kom út ljóðabókin "Dúnhárs kvæði" en 1984 komu út "Ferjuþulur, Rím við bláa strönd" en það voru tuttugu þulur og sögðu frá siglingu Akraborgarinnar. Ferjuþulurnar setti Alþýðuleikhúsið á svið á sínum tíma og Valgarður las þær inn á geisladisk fyrir nokkrum árum.
Valgarður Egilsson vinnur sem læknir að rannsóknarstörfum en hefur lengi fengist við skáldskap, m. a. skrifað fyrir leikhús. Þjóðleikhúsið setti Dags hríðar spor á svið árið 1980. Einnig hefur Valgarður skrifað skáldsögu á ensku, Waiting for the South Wind.