Flutningadeild Landspítala fékk fyrsta Toyota Yaris Hybrid bílinn sem seldur er hér á landi til fyrirtækis. Hann verður notaður í daglegar sendiferðir um allt höfuðborgarsvæðið.
Bílnum, sem er notaður í þessar sendiferðir, hefur verið ekið frá morgni til kvölds um 100 kílómetra á dag alla daga ársins og hann hefur komið við á um 25 stöðum.
Við vali á nýjum bíl í sendiferðirnar var sérstaklega hugað að því að hann væri bæði umhverfisvænn og sparneytinn. Yaris Hybrid þótti uppfylla hvort tveggja vel.
Áætlað er að með notkun þessa nýja bíls takist að lækka eldsneytiskostnað um 450-500 þúsund krónur á ári og minnka losun koltvísýrings verulega. Hvort tveggja rímar vel við markvissa hagræðingu í rekstri á Landspítala og framtíðarstefnumótun hans í umhverfis- og samgöngumálum.
Ljósmynd: Hlynur Ólafsson hjá Toyota afhenti Grétari Lindberg, bílstjóra hjá flutningaþjónustu Landspítala, nýja Yaris Hybrid bílinn formlega 4. júlí 2012.