Um 130 nemendur frá 14 grunnskólum heimsóttu Landspítala í árlegri kynningu fyrir 10. bekkinga 19. maí 2009. Þeim var boðið í Hringsal þar sem þeir fengu almenna kynningu á spítalanum og störfum sjúkraliða, lækna, sjúkraþjálfara og hjúkrunarfræðinga.
Nemendur frá Lindaskóla sem sendu mat á heimsókninni voru mjög ánægðir með hana, fannst mjög vel tekið á móti þeim og að þeir hefðu "lært margt og mikið um hin fjölbreyttu störf", í ferð sem var "mjög skemmtileg og fræðandi." Þeir sögðu m.a. að kynningarnar hafi "allar verið mjög skemmtilegar og vel heppnaðar" og "fróðlegar" og að það hafi verið "mjög gaman að hlusta." Þau sögðu einnig að áhugi þeirra á því að vinna á heilbrigðisstofnun og spítalanum hafi aukist og að upplifunin hafi verið "að vinna á heilbrigðisstofnun getur verið skemmtileg, gefandi og spennandi". Þau sögðu að það hafi verið gott að kynnast fleiri fögum en þeim sem þau kannski hefðu mestan áhuga á og að það hafi komið þeim á óvart að fleiri stéttir en heilbrigðisstéttir vinni á spítalanum. Það eina sem þau hefðu viljað hafa öðruvísi var að fara inn á spítalann til að sjá starfsemina með eigin augum.