Undanfarna daga hefur verið óvenju mikið álag á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH). Mikið er um að veikindi og inflúensa og aðrar pestir herji á landsmenn af fullum þunga. Í gær, fimmtudaginn 13. janúar, var svo komið að um 50 sjúklinga þurfti að leggja á bráðadeildir spítalans umfram skráð rúm. Þurft hefur að fresta skurðaðgerðum vegna þessa.
Framkvæmdastjórn LSH ákvað í gær að grípa til ráðstafana vegna þessa með því að bæta við 24 aukarúmum á spítalanum. Gæsludeild A-2 í Fossvogi var stækkuð og herbergjum sem eru til annarra nota breytt í sjúkrastofur. Einnig var dagdeild 13E við Hringbraut breytt í legudeild. Þessar ráðstafanir gilda til mánudagsins 17. janúar en þá verður ástandið endurmetið.
Starfsmenn Landspítala hafa lagst á eitt um að bregðast við því ástandi sem skapast hefur með mikilli samstöðu og samvinnu.