Til starfsmanna Landspítala
Frá framkvæmdastjóra lækninga
1. apríl 2010.
Ágætu samstarfsmenn!
Í gær héldum við nokkra fundi til þess að leita sátta við unglækna um vaktafyrirkomulag. Fundur var haldinn með talsmönnum ungra lækna og í framhaldi af því var fundað með formanni LÍ. Í gærkvöldi var haldinn fundur þar sem hluti framkvæmdastjórnar hitti tíu manna hóp ungra lækna. Formaður læknaráðs sat alla fundina. Framkvæmdastjórn lagði fram tillögu að lausn sem fólst í því að stofnaður yrði samráðshópur þar sem hinu nýja vinnufyrirkomulagi yrði fylgt eftir til þess að ná fram sameiginlegum markmiðum okkar og unglækna. Allir voru sammála um að þessi markmið væru að bæta samfellda viðveru unglækna í dagvinnu og þannig bæta þjónustu við sjúklinga, að bæta menntun og þjálfun unglækna og síðast en ekki síst að framfylgja vinnuverndarákvæðum um hámarks vinnutíma og hvíldartíma. Fundinum lauk án niðurstöðu.
Breyting á vöktum unglækna var gerð með vísan til 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Í bréfaskiptum við starfsmenn, Læknafélag Íslands og lögmenn á vegum starfsmanna hefur verið sýnt fram á að löglega hafi verið staðið að breytingunni og ákvörðun um hana tekin af réttum stjórnendum á LSH.
Eftir að ákvörðun um breytingu var tekin höfðu starfsmenn um tvennt að velja, að sætta sig við hana eða segja upp starfi sínu. Svarbréf tiltekinna starfsmanna um óánægju með nýtt vaktafyrirkomulag í janúar 2010 er ekki hægt að túlka sem ígildi uppsagnar.
Landspítali lítur því svo á að gagnkvæmur ráðningarsamningur aðila sé í fullu gildi og að starfsmönnum beri skylda til að efna ráðningarsamning sinn og lítur ólögmætar þvingunaraðgerðir mjög alvarlegum augum.
Fylgja verður lögmætum uppsagnarfresti vilji menn segja starfi sínu lausu.
Til að ítreka alvöru málsins hefur fjármálaráðuneytið, sem ber ábyrgð á starfsmannamálum ríkisins, sent bréf til Læknafélagsins þar sem fram kemur:
“Af þessu tilefni þykir starfsmannaskrifstofu rétt að taka fram að í gildi er formlegur kjarasamningur og er það á ábyrgð Læknafélagsins að sá samningur sé virtur af öllum þeirra félagsmönnum og ef til ólögmætra aðgerða komi beri Læknafélagið fulla ábyrgð á öllu því óhagræði og tjóni sem af því kunni að leiða. Telji Læknafélagið að kjarsamningurinn sé ekki virtur ber að óska eftir samstarfsnefndarfundi og/eða vísa deilunni til Félagsdóms”.
Um málið hefur einnig verið fjallað í samstarfsnefnd Landspítala og LÍ og kom þar fram af hálfu Læknafélagsins að um einstaklingsaðgerðir er að ræða.
Vegna stjórnsýslukæru nokkurra deildarlækna til Heilbrigðisráðuneytisins er rétt að taka fram að henni hefur þegar verið vísað frá.
Að sjálfsögðu óskar framkvæmdastjórn LSH eftir því að leysa þessi mál í sem mestri sátt, en er þröngur stakkur sniðinn, og harmar ólögmætar aðgerðir.
Við munum fylgjast náið með starfi spítalans næstu sólarhringa. Gott væri að heyra frá ykkur hvernig gengur.
Að lokum viljum við þakka ykkur kærlega fyrir ykkar starf við að skipuleggja vaktir og bregðast vel við.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnar Landspítala,
Ólafur Baldursson
framkvæmdastjóri lækninga