Stuðningshóparnir Samhjálp kvenna og Bætum brjóst hafa veitt skurðlækningadeild Landspítala styrk til kaupa og þjálfunar á tæki sem kemur að notum á lokastigum skurðaðgerða vegna brjóstakrabbameina. Tækið er einkum hugsað til að gera hörundsflúr (tattoo) á geirvörtu og vörtubaug en getur einnig nýst til staðbundinnar meðferðar á óeðlilegri örvefsmyndun. Í vaxandi mæli er brjóstakrabbameinssjúklingum boðið að gangast undir brjóstauppbyggingu í sömu aðgerð og brjóstið er numið á brott. Auk þessa eru umfangsmeiri fleygskurðir oftar en áður. Í tengslum við þessar aðgerðir hefur umfang og sérhæfing göngudeildarstarfseminnar stóraukist. Notkun tækisins mun styrkja uppbyggingu sérhæfðrar þjónustu fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga á Landspítala.
Myndin var tekin þegar styrkurinn var afhentur: Hrönn Guðmundsdóttir og Rannveig Lund frá samtökunum "Bætum brjóst", Kelly Forshaw leiðbeinandi, Kristján Skúli Ásgeirsson brjóstaskurðlæknir og Guðrún Sigurjónsdóttir og Sigurbjörg Þorleifsdóttir frá Samhjálp kvenna.