Út er komin handbókin "Tært loft" fyrir heilbrigðisstarfsfólk um reykleysismeðferð og tóbaksvarnir, í fyrsta sinn á Íslandi. Hún er unnin með hliðsjón af breskri handbók "Clearing the air", frá Royal College of Nursing í Bretlandi og staðfærð miðað við íslenskar aðstæður.
Handbókin er gefin út til minningar um Ingileifi Ólafsdóttur hjúkrunarfræðing og fræðslufulltrúa Krabbameinsfélagsins. Ingileif vann ómetanlegt starf í þágu tóbaksvarna á Íslandi og sýndi mikla þrautseigju við að brýna heilbrigðisstarfsmenn og yfirvöld í glímunni við tóbakið. Hún lést í ágúst 1999.
Verið er að kynna handbókina á LSH.
- Hægt er að skoða hana á upplýsingavef LSH með því að smella hér.
Í handbókinni eru greinargóðar leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um hvernig það getur aðstoðað fólk við að hætta að reykja á sem áhrifaríkastan hátt.
Tilgangur handbókarinnar: Auka þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á áhrifum reykinga á lýðheilsu Kynna helstu ákvæði tóbaksvarnalaga Veita heilbrigðisstarfsfólki upplýsingar um reykleysismeðferð í því skyni að bæta hæfni þeirra og öryggi á því sviði Styðja heilbrigðisstarfsfólk til að veita markvissa aðstoð til reykleysis Kynna úrræði og helstu leiðir við framkvæmd reykleysismeðferðar Bæta þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á lyfjameðferð við tóbaksfíkn með og án nikótíns. Auka hæfni þeirra til að ráðleggja reykingamönnum notkun lyfjameðferðar og í gerð áætlunar fyrir hvern og einn einstakling
Megináherslan er á reykleysismeðferð en þó ekki litið framhjá þeirri staðreynd að reyklaust tóbak er einnig skaðlegt heilsu manna. Fjallað er sérstaklega um reyklaust tóbak í bókinni og jafnframt vísað í frekari heimildir.
Tóbaksnotkun er alvarlegasta ógn nútímans við heilbrigði fólks. Hún hefur mikil áhrif á lífsgæði og lífslengd einstaklinga. Mikilvæg forvörn sjúkdóma næst fram með því að byrja aldrei að nota tóbak og styðja þá til reykleysis sem þegar eru byrjaðir að reykja
Á Alþingi voru í maí árið 2001 samþykkt ný og breytt lög um tóbaksvarnir. Þar er fastar en áður kveðið á um rétt fólks til reyklauss andrúmslofts, sem og takmarkanir á markaðssetningu og sölu tóbaks. Heilbrigðisstarfsfólk, sem er í lykilaðstöðu til að veita ráðgjöf til reykleysis, er hvatt til þess að fræða um áhrif tóbaksneyslu og leiðir til að draga úr henni.
Í handbókinni eru ráðleggingar fyrir sjúklinga, konur á meðgöngu og unglinga sem reykja.
Ýmsum spurningum er svarað, svo sem: Hvernig er nikótínfíkn metin? Pakkaár, hvernig eru þau reiknuð út? Hvað ávinnst við að hætta að reykja? Hvernig er unnið út frá breytingaferlinu?
Útgefendur | Styrktaraðilar |
Samtök hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra gegn tóbaki Krabbameinsfélag Reykjavíkur Hjartavernd, fagdeild lungnahjúkrunarfræðinga Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga Fagdeild hjúkrunarfræðinga á krabbameinssviði. |
Landspítali - háskólasjúkrahús Tóbaksvarnanefnd Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið Rannsóknasjóður lungnalækningaskorar LSH Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga Loftfélagið GlaxoSmithKline Thorarensen-Lyf |