Anders Jeppsson, prófessor og hjartaskurðlæknir á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, stýrði rannsókninni en hann hefur jafnfram unnið á Landspítala við afleysingar og sem rannsóknarprófessor við HÍ. Mynd: Sahlgrenska.
Sagt er frá þessum niðurstöðum í nýjasta hefti vísindatímaritsins New England Journal of Medicine (NEJM) en þetta er í fyrsta sinn sem norræn rannsókn í hjartaskurðlækningum nær inn á síður þessa virta tímarits.
Rannsóknin sem um ræðir nefnist TACSI og tók hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala þátt í henni ásamt öðrum slíkum deildum á Norðurlöndunum. Rannsóknin náði til 2.201 kransæðahjáveitusjúklings með svokallað brátt kransæðaheilkenni, þ.e. hvikula hjartaöng eða hjartadrep, en tæplega 60 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni hér á landi.
Sjúklingunum í rannsókninni var slembiraðað í tvo hópa, annar fékk hjartamagnýl eftir skurðaðgerðina en hinn hjartamagnýl og blóðflöguhemjandi lyfið ticagrelor (Brilique®).
Við eftirfylgni einu ári eftir aðgerðina reyndist ekki vera munur á lifun sjúklingahópanna tveggja eða tíðni kransæðastíflu, heilablóðfalls eða endurtekinnar aðgerðar. Hins vegar var tíðni alvarlegra blæðinga tvöfalt hærri í síðarnefnda hópnum og var aðallega um að ræða blæðingar frá meltingarvegi og blóðnasir.
Höfundar benda á að ljóst sé að allir sjúklingar eigi að fá hjartamagnýl eftir kransæðahjáveituaðgerð en rannsóknin styðji ekki þá fullyrðingu að betri árangur náist með því að gefa þeim einnig ticagrelor – þvert á móti tvöfaldist hættan á alvarlegum blæðingum. Alþjóðlegar leiðbeiningar kveða á um að umræddur sjúklingahópur eigi að fá bæði lyfin en höfundar rannsóknarinnar segja ljóst að niðurstöður hennar muni leiða til breytinga á klínískum leiðbeiningum.
Til stendur að fylgja sjúklingunum frekar eftir næstu árin eða í allt að 10 ár eftir aðgerð.
Grunnur að rannsókninni lagður á Íslandi
Fyrsti höfundur vísindagreinarinnar og aðalrannsakandi er hjartaskurðlæknirinn Anders Jeppsson, prófessor og yfirlæknir á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg. Anders hefur um árabil leyst af sem sérfræðingur á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og starfaði jafnframt sem rannsóknarprófessor við læknadeild Háskóla Íslands (HÍ) á vormisseri 2023 þar sem hann lagði grunninn að TACSI-rannsókninni. Stjórnandi rannsóknarinnar á Íslandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor við læknadeild og yfirlæknir á Landspítala, en einnig tóku þátt Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum við læknadeild HÍ, og Jóhanna Lind Guðmundsdóttir og Fríða Björk Skúladóttir, hjúkrunarfræðingar á Landspítala.
Sem fyrr segir er þetta í fyrsta skipti sem norræn rannsókn í hjartaskurðlækningum nær inn á síður NEJM sem er eitt virtasta vísindarit heims á sviði klínískrar læknisfræði. Sama dag og rannsóknin kom út í NEJM voru niðurstöðurnar kynntar á þingi European Society of Cardiology í Madríd, en það er stærsta vísindaráðstefna heims í hjartalækningum. Þá stendur til að kynna rannsóknina á þingi norrænna hjarta- og lungnaskurðlækna (SATS) í Hörpu fimmtudaginn 18. september.
Fyrirspurnum um rannsóknina svarar Karl Andersen (andersen@landspitali.is), farsími: 825-3622.