Mynd: Haldið upp á komu Genius á meinafræðideild: Kent Elkrog, Jurate Ásmundsson, Jón Gunnlaugur Jónasson, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Emina Islami.
Um er að ræða tækið Genius frá Hologic sem hefur verið kennt að þekkja eðlilegar frumur frá afbrigðilegum frumum og flokka þær. Tækið er samþykkt af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) auk þess að vera CE-merkt.
Þegar stjórnendur Landspítala samþykktu leigu á tækinu var staðan mjög þröng í þessari þungu rútínuvinnu, sem er liður í skimun fyrir leghálskrabbameini. Ástæðan var sú að ekki fannst fólk með þjálfun í þeirri vinnu sem tækið getur sinnt. Slík þjálfun tekur langan tíma og hafði verið reynd en gengið illa.
Byggðu upp rannsóknastofu frá grunni
Miklar breytingar hafa orðið á leghálsleitarstarfi síðustu rúmlega fimm ár. Leitinni hafði um áratugaskeið verið stjórnað af Krabbameinsfélagi Íslands og hún rekin þaðan en með stjórnvaldsaðgerð var félaginu gert að hætta starfsemi sinni í árslok 2020. Öllu því starfsfólki sem þar vann var þá sagt upp. Tímabundið voru leghálssýnin send til greiningar í Danmörku og tóku Danir við öllum leghálssýnum frá Íslandi árið 2021, ásamt helmingi leghálssýna árið 2022. Þeir HPV-mældu sýnin og frumuskoðuðu þau sýni þar sem það átti við.
Óánægja með þetta fyrirkomulag varð síðan til þess að meinafræðideild Landspítala við Hringbraut var gert að taka við þjónustunni af Dönum. Byggja varð upp frumurannsóknastofu til greiningar leghálssýnanna frá grunni, þ.á m. móttöku sýna, skráningu, vinnslu og greiningar þeirra.
Öll ThinPrep leghálssýni fyrst mæld fyrir HPV
Vinnsla og greining frumusýna frá leghálsi er nú á tveimur stöðum á Landspítala: í Ármúla og við Hringbraut. Í Ármúlanum mælir sýkla- og veirufræðideild spítalans öll móttekin leghálssýni með tilliti til há-áhættu / oncogenic Human papilloma veiru (HPV veiru). Notað er Cobas tæki og svar er í formi HPV 16, 18 eða A jákvætt. A stendur fyrir annað en 16 og 18 og samanstendur af 12 serotýpum af há-áhættu HPV veirum með eftirtalin númer: 31, 33, 35, 39, 45, 51, 52, 56, 58, 59, 66, 68. Langstærstur hluti sýnanna er HPV neikvæður.
Genius vinnustöð.
Í ársbyrjun 2024 var byrjað að HPV mæla sýni frá 23-29 ára konum en áður var það aðeins gert fyrir konur á aldrinum 30-65 ára. Þannig eru nú öll ThinPrep leghálssýnin fyrst mæld fyrir HPV og einungis þau sýni þar sem veiran mælist eru frumuskoðuð. Þetta þýðir að aðeins hluti leghálssýnanna er skoðaður með gervigreindinni: öll HPV jákvæð sýni sem greinast við skimun og nánast öll eftirlitssýni og sýni tekin vegna einkenna. Undirritaðar, tveir læknar með sérmenntun í meinafræði og frumumeinafræði, fara yfir öll leghálssýnin en hlutverk gervigreindarinnar er að finna afbrigðilegar frumur í sýninu og flokka þær.
Gervigreindartækið Genius býður upp á fleiri möguleika fyrir framtíðina og gerir okkur líka kleift að vinna hluta vinnunnar utan Landspítala. Tækið sparar mikinn tíma og álagstímar verða færri og viðráðanlegri. Innra og ytra gæðaeftirlit er eins og best verður á kosið.
Árið 2024 voru skoðuð 5.637 leghálssýni, í smásjá fram til 19. apríl en eftir það með Genius. Svör úr sýnatöku berast yfirleitt innan 1-2 vikna, en aldrei síðar en þremur vikum eftir að sýni berst meinafræðideildinni.