Fyrstu höfundar greinarinnar eru Ingunn Haraldsdóttir sérnámsgrunnslæknir og Signý Lea Gunnlaugsdóttir, sérnámslæknir á fjórða ári í lyflækningum á Landspítala. „Þessi rannsókn var mjög mikilvæg til að fá innsýn í hvar við stöndum þegar kemur að þessum alvarlegu sýkingum. Ekki síst í ljósi þess að gera má ráð fyrir mikilli áframhaldandi aukningu í liðskiptaaðgerðum og við verðum samhliða því að gera ráð fyrir hækkandi tíðni gerviliðasýkinga,“ segir Signý Lea. „Þessar sýkingar eru alvarlegar með tilheyrandi lífsgæðaskerðingu fyrir sjúklinginn sem á í hlut og þess utan fylgir þeim gífurlegur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið vegna langrar sjúkrahúslegu og sýklalyfjagjafa í æð.“
Sýkingar algengari hjá körlum
Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að gerviliðasýkingum fer fjölgandi og var aukningin marktæk þegar kemur að sýkingum í mjaðmalið. Nýgengi gerviliðasýkinga á Íslandi, sem verða innan tveggja ára frá liðskiptaaðgerð, er 0,94% sem er svipað og í nágrannalöndunum þótt mismunandi skilgreiningar þessara sýkinga takmarki að einhverju leyti samanburð.
Þá eru sýkingarnar algengari í körlum en konum og er það í samræmi við erlendar niðurstöður. „Það er forvitnilegt í ljósi þess að það eru fleiri konur en karlar sem gangast undir liðskiptaaðgerðir. Þessi kynjamunur er einnig til staðar í sýkingum í eigin lið sem er áhugavert og við höfum ekki augljósa skýringu á þessu en sennilega er hún margþætt,“ segir Signý Lea.
Þegar kom að skurðmeðferð þessara sýkinga var svokölluð DAIR meðferð fyrsta val í 51% tilfella en meðferðarþrot (DAIR failure) átti sér stað í tæplega helmingi tilfella. Að sögn Ingunnar var ánægjulegt að sjá marktækt aukinn árangur DAIR meðferðarinnar en tilvikum meðferðarþrots fækkaði úr 62% á fyrri hluta tímabilsins yfir í 42% á seinni hluta tímabilsins. Það skýrist líklega af bættu sjúklingavali og skilgreiningu þeirra sem hafa ávinning af DAIR meðferð umfram annars konar skurðmeðferðir.
Hátt hlutfall greinist í skurðaðgerð
Aðspurð segist Signý Lea ekki hafa átt von á því hversu lágt hlutfall gerviliðasýkinga greinist með liðvökvasýnatöku eingöngu eða um 40% tilfella. Það ýtir undir mikilvægi þess að halda áfram til sýnatöku í aðgerð sé klínískur grunur um sýkingu hár. Þá segir hún hækkandi nýgengi sýkinga í mjaðmalið hafa komið á óvart og ætti ef til vill að skoða nánar.
Skráningu liðskiptaaðgerða ábótavant
Það flækti ýmsa útreikninga, að sögn Ingunnar, að ekki fengust nægilega góð gögn fyrir fyrstu ár rannsóknartímabilsins hvað varðar aðgerðafjölda og greiningarkóðaskráningu. „Þar fengum við að kynnast mikilvægi góðrar skráningar og utanumhalds um gögn og tölur,“ segir hún. Signý Lea tekur undir. „Við rákum okkur á að skráningu þessara aðgerða er ábótavant bæði innan spítalans og utan. Það er eitthvað sem verður að bæta til að tryggja áframhaldandi eftirlit og til að auðvelda frekari rannsóknir.“
Stoltar og ánægðar
Þær Ingunn og Signý Lea segjast báðar bæði stoltar og hæstánægðar með að hafa fengið greinina birta í erlendu ritrýndu tímariti. „Fyrst og fremst er ég stolt yfir því að hafa lagt eitthvað til málanna þegar kemur að vitneskju okkar á þessum hvimleiðu sýkingum. Við vonumst svo auðvitað til frekari vitundarvakningar bæði innan spítalans og utan en það er mikilvægt að fólk á leið í aðgerð sé upplýst um þennan alvarlega en sem betur fer sjaldgæfa fylgikvilla liðskiptaaðgerðar,“ segir Signý Lea að lokum.