Á hverju ári heiðrar Landspítali starfsfólk sem hefur skarað fram úr og lagt sitt af mörkum til starfsemi spítalans svo eftir er tekið.
Heiðrað er í flokkum sem samsvara gildum spítalans: Umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Að auki er heiðrað í flokknum „vinnustaðurinn okkar“ þar sem heiðraðir eru traustir vinnufélagar sem gera vinnudaginn betri.
Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.
Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim og verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026 en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.
Einstaklingar sem voru heiðraðir, ásamt umsögn:
Halla Ósk Halldórsdóttir, ljósmóðir á fæðingarvakt
Flokkur heiðrunar: Öryggi
„Halla stendur framarlega í starfi við sí- og endurmenntun ljósmæðra í skipulagi og kennslu við PROMPT-námskeiðin í tengslum við meðgöngu, fæðingu og sængurlegu, svo og við umönnun nýbura. Hún er einnig mikil og góð fyrirmynd sem ljósmóðir á 23B.“
Sigrún Sigurfljóð Snorradóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu Hringbraut
Flokkur heiðrunar: Umhyggja
„Sigrún er yndisleg manneskja sem er alltaf með faðminn opinn. Hún er óhrædd við að sýna umhyggju í einstaklega erfiðum tilfellum og nálgast fólk á þeim stað sem það er hverju sinni, hvort sem það er með alúð, samhygð eða gamansemi.“
Ríkarður Sigfússon, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum
Flokkur heiðrunar: Framþróun
„Ríkarður hefur lyft grettistaki í gerviliðsskurðlækningum Landspítala. Verið virkur í kennslu deildar- og sérnámslækna. Einstaklega þægilegt að leita ráða frá honum og maður kemur aldrei að tómum kofanum.“
Jenný Sigurlína Níelsdóttir, sjúkraliði á Laugarási meðferðargeðdeild
Flokkur heiðrunar: Vinnustaðurinn okkar
„Jenný er klettur í starfsemi Laugarássins, hún er skipulögð og lausnamiðuð, hefur einstakt auga fyrir þörfum hvers einstaklings og mætir fólki þar sem það er statt og hvetur áfram.“
Jóhanna Guðrún Pálmadóttir, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum barna á Barnaspítala Hringsins
Flokkur heiðrunar: Fagmennska
„Jóhanna Guðrún hefur verið leiðandi í að þróa verklag, einfalda ferla og stytta biðtíma barna sem leita til Barnaspítala Hringsins vegna meltingavandamála. Hún er einstaklega samviskusöm og umhugað að þjónustan við börnin sé sem allra best og spítalinn nýtur góðs af framlagi hennar til barnalækninga og meltingasjúkdóma barna.“
Teymi sem voru heiðruð, ásamt umsögn:
Fasteignaþjónustan
Flokkur heiðrunar: Vinnustaðurinn okkar
„Ég dáist að hópi iðnaðarmanna sem starfar á spítalanum, þeir eru fljótir að bregðast við beiðnum og leysa úr öllum verkefnum með bros á vör. Það er mikill fengur fyrir Landspítala að hafa svona öfluga iðnaðarmenn í sínum röðum.”
Transteymið
Flokkur heiðrunar: Framþróun
„Þetta teymi er búið að takast á við áskorun eftir áskorun og vera á tánum við að finna lausnir. Auk þess að finna tíma til að sinna símenntun. Þjónustan er orðin ein af flottustu transteymum sem að finnst á alþjóðavísu.“
Fótameinateymið
Flokkur heiðrunar: Fagmennska
„Undanfarin fimm ár eða svo hefur teymið unnið markvisst að því að koma á fót fyrstu og enn sem komið er einu samþættu þjónustunni fyrir sykursýkissár á Íslandi. Þessi þjónusta hefur bætt snemmbæra greiningu, meðferð og forvarnir fyrir sjúklinga um allt land.“
Sondueftirlit Vökudeildar
Flokkur heiðrunar: Öryggi
„Eftirlit með börnum sem útskrifast af Vökudeild hefur orðið til þess að börnin komast mun fyrr heim en áður var í faðm fjölskyldunnar sem er mjög mikilvægt fyrir vellíðan allra fjölskyldumeðlima. Einnig er það mikilvægt fyrir betri nýtingu á dýrmætum sjúkrahúsplássum á gjörgæsludeild nýbura.“
Hér fyrir neðan má sjá heiðranir starfsfólks: