Á myndinni eru Guðrún Día Hjaltested, starfsmannasjúkraþjálfari á Landspítala, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs Landspítala, Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í lyftingum og læknanemi, og Guðrún Aspelund, settur landlæknir.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands þar sem landsmenn á öllum aldri eru hvattir til að taka þátt og nota tækifærið til að efla líkama og sál.
Markmið Lífshlaupsins er að fólk hugi að sinni daglegu hreyfingu og auki hana eins og kostur er, t.a.m. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta.
Lífshlaupið skiptist í fjórar keppnir: Grunnskólakeppni, framhaldsskólakeppni, vinnustaðakeppni og hreystihópa fyrir 67 ára og eldri.
Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum.