Árlega greinast hér um 2.000 manns með krabbamein en gangi spár eftir um 57% aukningu til ársins 2040 þýðir það að greiningarnar verða um 3.000 á ári eftir aðeins 15 ár. Fjölgun krabbameinstilfella kemur m.a. til vegna fólksfjölgunar og breyttrar aldurssamsetningar. Ljóst er að þessi fjölgun mun valda miklu álagi á heilbrigðiskerfið.
Undirbúa vottunarferli með alþjóðlegum samtökum
Landspítali er þegar farinn að huga að því hvernig megi byggja upp þjónustu og undirbúa heilbrigðiskerfið fyrir þessa fjölgun. Ein aðgerðanna sem spítalinn hyggst grípa til er að undirbúa vottunarferli með aðkomu Organization of European Cancer Institutes (OECI) í samstarfi við Háskóla Íslands og fleiri.
Með vottun frá OECI yrði krabbameinsþjónusta á Íslandi fyrsta klíníska heilbrigðisþjónustan sem hlyti alþjóðlega vottun. Þetta hefði ótvíræð áhrif til góðs fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þar sem ákveðnir staðlar yrðu settir og þeim fylgt fyrir greiningu og meðferð, rannsóknir á krabbameinum, forvarnir krabbameina, menntun heilbrigðisstarfsfólk sem og þjónustu við einstaklinga sem eru í aukinni áhættu á að fá krabbamein og/eða greinast með krabbamein.
Landspítali aðili að tveimur stórum verkefnum um miðlun sérfræðiþekkingar
Þá hefur spítalinn hafið þátttöku í tveimur stórum verkefnum sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2024 og janúar 2025: EUnetCCC og JANE2. Aðalmarkmið þessara verkefna er að mynda sterk tengslanet til að miðla sérfræðiþekkingu innan Evrópu um krabbamein. Bæði verkefnin eru hluti af umfangsmikilli áætlun (Europe’s beating cancer plan) sem Evrópusambandið hratt af stað árið 2021 og er ætlað að setja mikla fjármuni í forvarnir, greiningu og meðferð krabbameinssjúklinga. Á þriðja tug Evrópulanda taka þátt í þessum verkefnum sem skiptast í um 10 mismunandi vinnupakka þar sem Ísland er þátttakandi í fjórum en mest er framlagið í vinnupakka sem snýr að forvörnum.