Námsbrautin er hluti af metnaðarfullu sérnámi lækna sem hefur verið í mikilli uppbyggingu undanfarin ár.
Að sögn yfirlæknis sérnáms á Landspítala er nauðsynlegt að læknar búi yfir færni til að koma að þróun framtíðarheilbrigðisþjónustu.
Viðstödd í Grósku voru þau Alma Möller heilbrigðisráðherra og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra sem bæði ávörpuðu viðstadda.
„Nýsköpunin er lykillinn að því að bæta og efla heilbrigðiskerfið og takast á við stórar áskoranir framundan. Með innleiðingu nýrrar tækni og lausna getum við bætt þjónustu, stytt biðlista og aukið hagkvæmni í rekstri. Námsbraut í nýsköpun er mikilvægt skref í þessa átt og ég fagna innilega framtaki þeirra sem að henni standa“ segir Alma Möller heilbrigðisráðherra.
„Það er til mikils að vinna fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að við nýtum tækninýjungar betur. Þannig hefur verið áætlað að umbætur á sviði stafvæðingar gætu leitt til um 9% lækkunar á heildarkostnaði á Landspítala árið 2040 – á sama tíma og þjónustan er bætt og gæði hennar aukin. Þess vegna er tilkoma þessarar námsbrautar mikið fagnaðarefni og munum við í mínu ráðuneyti styðja markvisst við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.