Á myndinni eru Árdís Björk Ármannsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi og Tómas Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Lækninga á Landspítala, við undirritun samkomulagsins.
Undanfarin ár hefur sérnám í endurhæfingarlækningum verið í þróun á Landspítala og nú með aðkomu Reykjalundar. Á námið er nú komin góð reynsla, en þann 16. desember var lögð lokahönd á sameiginlega framkvæmd fulls sérnáms í endurhæfingarlækningum með aðkomu beggja stofnana með undirritun samstarfssamnings.
Þessi áfangi er mikilvægur þáttur í að styrkja þróun og þjónustu við sjúklinga sem þurfa endurhæfingu hér á landi. Sérnám í endurhæfingu er þá áttunda heila sérnámið sem rekið er frá Landspítala og er frábært dæmi um samvinnu stofnana á milli með hag þessa vaxandi sjúklingahóps til framtíðar að leiðarljósi.