Fljótlega varð ljóst að um hópsýkingu var að ræða en alls greindust 55 börn frá sama leikskóla með bakteríuna, sem fannst í matvælum sem þau höfðu neytt.
Ómögulegt er að ráða við verkefni af þessari stærðargráðu án aðkomu allra fagstétta, þó mest hafi mætt á læknum og hjúkrunarfræðingum. Starfsfólk bráðamóttöku og legu- og göngudeilda barnaspítalans hljóp á tvöföldum hraða, mætti á aukavaktir og leysti meðal annars nýrnalækna barnaspítalans, sem eru tveir, undan öðrum skyldum svo þeir fengju rými til að sinna veikustu börnunum.
Starfsfólk gjörgæslu nánast tæmdi deildina til að skapa rými fyrir börnin og auk þess spilaði skilunardeild Stórt hlutverk í þessu risavaxna verkefni þar sem gott skipulag frá fyrsta degi, jákvæðni og samstaða voru lykilþættir.
Börnin eru nú öll á batavegi en mörg þeirra munu þurfa langtímaeftirlit með nýrnastarfsemi.
Ásvaldur Kristjánsson, myndatökumaður Landspítala, tók saman myndband um faraldurinn sem sýnir vel hina þungu stöðu sem var uppi á Barnaspítalanum í nóvember.